138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um að við söknum þess svolítið að iðnaðarráðherra skuli ekki vera við þessa umræðu þar sem þetta er mál hæstv. ráðherra sem verið er að ræða. Ég fagna þó að sjálfsögðu að hv. formaður iðnaðarnefndar sé hér.

Eftir því sem við lesum þetta frumvarp betur vakna fleiri spurningar, ekki síst í ljósi þess að við höfum ekki fengið mikinn tíma til að kynna okkur málið. Hér er rakin merkileg saga þessa gjalds, líklega 35 ára gömul saga, og um margt má lesa hvernig þróunin hefur verið. Ég ætla í mínu fyrra andsvari að velta upp við hv. þingmann því sem fram kemur í 2. gr. frumvarpsins þar sem sagt er að í stað þess að þeir fjármunir sem innheimtir verða vegna ársins 2009 renni til Samtaka iðnaðarins muni þeir renna í ríkissjóð, alls 420 millj. kr., og verða þar væntanlega nýttir af ríkissjóði. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji eðlilegt að gera þetta með þessum hætti, þ.e. að ríkið virðist ætla að innheimta gjaldið, ráðstafa því svo sjálft í gegnum fjárlög til verkefna sem þetta gjald væntanlega rann til áður í gegnum Samtök iðnaðarins. Hefði ekki verið eðlilegra að afnema þetta strax þannig að það yrði ekki innheimt fyrir árið 2009 í ljósi þess dóms sem hér um ræðir og til þess í raun að senda út þau skilaboð að þetta eigi að falla strax niður?