138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:21]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef miklar efasemdir um að sú leið sem farin er í þessu frumvarpi sem viðbrögð við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu sé rétt og standist. Ég held að menn hljóti að velta fyrir sér akkúrat þeirri leið sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefnir. Eins og hv. þingmaður nefndi er gert ráð fyrir því að í stað þess að þessir fjármunir renni til Samtaka iðnaðarins renni þeir í ríkissjóð. Einhver hélt því fram að í þessari skattheimtu eins og hún birtist þarna fælist jafnvel svokölluð mannréttindasniðganga, en látum það liggja á milli hluta.

Það sem ég nefndi í ræðu minni hér fyrr í dag var að dómurinn gengur út frá þeirri forsendu að það hafi talist brot gegn 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsið að skylda kæranda málsins, borgarann, til að greiða gjald til samtaka sem hann vildi ekki eða valdi ekki sjálfur að vera aðili að, og þar fyrir utan börðust þau samtök fyrir hagsmunamálum sem greiðandinn var ekki sammála. (Forseti hringir.) Með þessari breytingu er lagt til að gjaldið renni frekar í ríkissjóð og ég geri ekki ráð fyrir því að iðnaðarmenn þessa lands séu sérstaklega samþykkir þeirri stefnu sem (Forseti hringir.) ríkisstjórnin hefur uppi í þeirra málefnum.

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmann afsökunar á því að klukkan í borðinu hefur farið fram og til baka.)