138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og þetta er lagt hér fram og liggur fyrir má eiginlega líta á þetta sem aukaskatt sem ríkið sé að ná sér í vegna ársins 2009. Þó að hér standi að það eigi að ráðstafa þessu með ákveðnum hætti spyr maður: Á að nota þessa fjármuni í stað annarra fjármuna sem annars áttu að fara í þessi mál, svo sem menntamál og slíkt, eða er það ætlun ríkisstjórnar — og nú sakna ég þess að hæstv. ráðherra sé ekki í salnum til að blanda sér í umræðuna — að bæta 420 millj. kr., vegna þess að ríkið ætlar að innheimta þessar tekjur, við það fjármagn sem er til umráða til menntunar og nýsköpunar í iðnaði? Þessu þarf að svara því að ef svo er ekki má færa fyrir því rök að ríkið sé þarna að ná í 420 millj. kr. skatt sem þeir sem borga iðnaðarmálagjald greiða til ríkisins. Þá má líka færa fyrir því rök að þetta sé aukaskattur á eina stétt eða eina grein.

Eins og ég sagði áðan vakna ýmsar spurningar, frú forseti, þegar við lesum þetta. Mig langar að fá nánari skýringar hjá hv. þingmanni um þessa skattaímynd, hvort þær vangaveltur sem ég er með uppi geti verið réttar.