138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:25]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þessar hugleiðingar hv. þingmanns séu alveg hárréttar og á rökum reistar. Ég fæ ekki betur séð en að með þessu sé skattlagningarvaldið, ríkisvaldið, í rauninni að fara ákveðna Krýsuvíkurleið til að ná fram sama markmiði og gamla iðnaðarmálagjaldið og lög þar um mæltu fyrir. Það er bara verið að fara aðra leið að sama markinu, a.m.k. hvað varðar rekstrarárið 2009. Þeir sem þurfa að greiða gjaldið fyrir rekstrarárið 2009 eru alveg jafnilla settir eftir sem áður, það á ekki að skipta þá neinu verulegu máli hvort þeir greiða gjaldið til Samtaka iðnaðarins eða til ríkissjóðs. Þetta eru sömu peningarnir og sömu fjárhæðirnar þannig að það er ekki eins og hvað varðar a.m.k. það rekstrarár sem verið sé að losa þá undan þessari greiðsluskyldu.

Þetta eru allt saman atriði sem hv. iðnaðarnefnd undir stjórn hv. þm. Skúla Helgasonar hlýtur að taka til gaumgæfilegrar skoðunar þegar málið kemur þar til umfjöllunar. Hún hlýtur að fara nákvæmlega yfir forsendur þessa dóms og hvað hann þýðir almennt fyrir félagafrelsið í landinu, skylduaðild og skyldugreiðslu, og fá þá útskýringar á því atriði, ekki einungis frá starfsmönnum ráðuneytisins heldur einnig þeim sérfræðingum sem um þetta hafa fjallað og skrifað á umliðnum árum. Nóg er af þeim.