138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:27]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Við höfum rætt þetta frumvarp um breyting á lögum um iðnaðarmálagjald í töluverðan tíma í þinginu, enda málið ekki lítið. Það er ekki skrýtið að þegar íslenska ríkið er dæmt fyrir mannréttindabrot gegn borgurum sínum spinnist um það atriði einhver umræða á þinginu, sérstaklega hjá þeim hv. þingmönnum sem er annt um mannréttindi og hafa áhuga á málaflokknum.

Ég vek athygli hæstv. forseta á því að hæstv. ráðherra sem ber þetta mál fram var vissulega við umræðuna í upphafi þegar hún mælti fyrir frumvarpinu en hefur verið fjarverandi stóran hluta umræðunnar. Ég vildi bara vekja athygli á þessu vegna þess að ég tel að það hljóti að eiga að vera almenn regla að þegar hæstv. ráðherrar leggja fram frumvarp (Forseti hringir.) séu þeir við a.m.k. 1. umr. um málið, (Forseti hringir.) helst allar þrjár.