138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir ágæta ræðu og eins það sem hann gat um að það væri verið að skoða ýmis svipuð gjöld. Ég mundi vilja stinga upp á því, frú forseti, með hagsmuni Samtaka iðnaðarins í huga að það yrði ákveðið að gjaldið yrði endurgreitt afturvirkt svo sem eins og um þann fyrningartíma sem er venjulega á svona kröfum, kannski fjögur ár. Ég er ekki lögfræðingur og þekki það ekki nákvæmlega. Þeir sem þess óska sérstaklega ættu að geta fengið gjaldið endurgreitt og þá frá Samtökum iðnaðarins. Á þessu ári mundi gjaldið sem innheimt verður renna til Samtaka iðnaðarins nema hjá þeim sem þess óska að fá það endurgreitt, af því að mér skilst að það sé búið að leggja það á. Það held ég að yrði miklu betra bæði fyrir Samtök iðnaðarins og eins fyrir þá sem óska þess að greiða ekki gjaldið. Þeir geta þá notið þeirra mannréttinda að þurfa ekki að greiða í félög sem brjóta t.d. 73. gr. stjórnarskrárinnar um að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

Ég mundi vilja að hv. nefnd skoðaði þetta ákvæði og skoðaði sérstaklega að lögin féllu strax úr gildi. Mér finnst ótækt að lög sem dæmd hafa verið sem mannréttindabrot séu áfram í gildi og jafnvel um alla framtíð. Það er ekkert í frumvarpinu um það að lögin falli úr gildi. Með þessum hætti, með endurgreiðslu til þeirra sem þess óska og að Samtök iðnaðarins fengju gjaldið hjá hinum, held ég að menn slyppu vel frá málinu. Auðvitað þurfa menn líka að skoða fjöldann allan af öðrum gjöldum og sérstaklega gjaldið sem við samþykktum sem lög í gær.