138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mannréttindabrotin sem Mannréttindadómstóll Evrópu komst að raun um að væru fólgin í þessum lögum hurfu ekki eða mynduðust ekki við það að dómurinn felldi úrskurð. Þau voru til staðar áður og hafa væntanlega verið til staðar alla tíð. Þess vegna finnst mér mjög brýnt að þeir sem telja sig líða fyrir þessi mannréttindabrot geti fengið endurgreitt eins langt aftur í tímann og fyrningarreglur gefa til kynna og jafnvel lengra af því að þetta eru mannréttindabrot.

Ég hugsa að þeir séu ekkert voðalega margir, frú forseti. Ég held að Samtök iðnaðarins vinni gott starf fyrir iðnaðinn í heild sinni og að fyrirtækin sem þar eru innan borðs muni gjarnan vilja borga af frjálsum vilja til samtakanna. En ég held að menn geti ekki sagt að mannréttindi komi allt í einu einn daginn og fari einhvern annan dag, það gengur ekki upp. Mannréttindabrot eru mannréttindabrot fyrir og eftir dóminn þannig að ég vil endilega að hv. nefnd skoði þetta. Og ég vil að ríkisstjórnin taki sér tak.

Forsætisráðherra talaði mjög léttvægt um þetta en ég vil minna á það að mannréttindabrot eru mannréttindabrot. Hæstv. ríkisstjórn getur hreinlega ekki valtað yfir þetta af léttúð. Hún á nú þegar að fara í mjög harða vinnu með öll þessi gjöld sem ég hef nefnt, öllsömul. Það eru orlofsheimilin, það er Félagsheimilasjóður, það eru félagsgjöld til opinberra starfsmanna, það er nýi Fræðslusjóðurinn, búnaðargjaldið, fiskiræktargjald, gjöld til STEF o.s.frv. Það er fjöldinn allur af gjöldum sem er eins ástatt með eða jafnvel enn þá verr vegna þess að gjöldin eru ekki ákveðin í lögum eins og iðnaðarmálagjaldið heldur ákveðin í samningum.