138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um iðnaðarmálagjald. Mig langar í upphafi að minnast á það að hæstv. utanríkisráðherra kom hér og skensaði þingmann áðan sökum þess að einhverjir hefðu sett þessi lög á sínum tíma sem brjóta gegn stjórnarskránni og var þá vísað í flokk þingmannsins. Ég vil benda á að þessi lög voru sett 1993 og þá var forveri Samfylkingarinnar í ríkisstjórn þannig að ég tel að ef hann vill finna einhvern ábyrgðarmann beri hæstv. utanríkisráðherra jafnmikla ábyrgð á þessu og Sjálfstæðisflokkurinn, ef liggur fyrir honum að fría sig af því.

Félagafrelsið er varið í bæði stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Að auki er ákvæði um félagafrelsi og verndun þess að finna í yfirlýstri samþykkt nr. 87 frá Alþjóðavinnumálastofnuninni en það plagg var undirritað 17. júní 1948. Ákvæði um félagafrelsi á sér mjög langa sögu og djúpar rætur og er í flestum mannréttindaköflum þar sem við á í stjórnarskrám og öðru. Félagafrelsið með mannréttindakaflanum kom inn í stjórnarskrána okkar 1995 þannig að þetta er vel varið hér, sem betur fer.

Það er svolítið skrýtið að vera hér með dóminn sem féll 20. desember 2005 þar sem Vörður Ólafsson fór í mál við íslenska ríkið vegna þess að honum hugnaðist ekki að greiða iðnaðarmálagjald. Var þetta mjög vel rökstutt mál hjá þessum aðila. Hæstiréttur var fjölskipaður, fimm dómarar komu að hæstaréttardómnum, en héraðsdómur hafði dæmt þessum einstaklingi í óvil þannig að hann skaut málinu til Hæstaréttar. Ég var að lesa þetta yfir í dag. Það er svolítið merkilegt þar sem við stöndum nú við frammi fyrir því að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ógilt þetta og í raun farið gegn íslenska ríkinu að einn dómari komist að sömu niðurstöðu og Mannréttindadómstóll Evrópu, þ.e. sératkvæði Ólafs Barkar Þorvaldssonar. Þar reifar dómarinn raunverulega á sama hátt og Mannréttindadómstóll Evrópu hvaða reglur gildi um félagafrelsi og fer yfir það að ákvæðin hafi að geyma ítarlegar reglur um félagafrelsið sem fram koma í orðalagi 11. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis, samanber lög 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu. Það stendur í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar að engan megi skylda til aðildar að félagi, með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda. Svo eru þessi ákvæði reifuð og dómarinn fer yfir hvers eðlis iðnaðarmálagjald er í hans augum. Þess er sérstaklega getið að iðnaðarmálagjaldið eigi að vera til eflingar íslensks iðnaðar.

Við vitum hvað varð um málið. Það hefur verið farið yfir það hér. Þessu var skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Við skulum athuga nafnið á þeim dómstóli: Mannréttindadómstóll Evrópu. Þangað geta aðilar sótt mál sín sem hafa orðið undir eða telja rétt sinn brotinn í heimalandi sínu og því miður, herra forseti, hafa nokkur íslensk mál ratað fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Þá komum við aftur að því sem ég hef verið að benda á. Þetta sýnir okkur að lagasetning á Íslandi er afar slök. Auðvitað á ekki að þurfa að fara með málið þetta langt ef lagasetning er í lagi hér á landi, enda hef ég lagt fram frumvarp til laga um lagaskrifstofu Alþingis þar sem lagt er til að lagasetning hér á Alþingi verði mun betri og raunverulega skotheld þannig að það þurfi ekki að verða slys af þessu tagi. Þetta er svo mikil sóun á peningum. Það er svo mikil sóun á peningum að aðilar skuli þurfa að sækja mannréttindamál fyrir dómstólum. Hér kemur t.d. fram að Evrópudómstóllinn hafi úrskurðað íslenska ríkið til að greiða 26.000 evrur í málskostnað. Þar er íslenska ríkið að borga óþarfagreiðslur vegna lélegrar lagasetningar. Þetta er afar skrýtið. Nú hefur formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Skúli Helgason, boðað að í skoðun séu önnur gjöld af svipuðu tagi, hvort þau standist yfir höfuð lög. Það er vel. Ég vil að nefndin vinni hér hratt og vel til þess að fá úr þessu skorið því að annars er jafnvel hætta á dómsmáli.

Á sínum tíma skrifaði ég ritgerð um félagafrelsi að því hvort einstaklingar hefðu val um það í hvaða lífeyrissjóð þeir borguðu. Fór ég vel ofan í réttarheimildir félagafrelsis hér á landi og erlendis og rakti það mál í ritgerðinni. Það treystir sér t.d. enginn til þess að skera úr um það, það þyrfti að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort skylduaðild að lífeyrissjóðunum standist og hvort einstaklingurinn hafi ekki frelsi til að velja þann lífeyrissjóð sem hann sjálfur vill. Dómurinn sem birtist okkur núna um iðnaðarmálagjaldið frá Evrópudómstólnum setur þessar spurningar í nýtt samhengi og kveikir á ný vafann um hvort öll þessi gjöld séu ógild. Þá beini ég því líka til iðnaðarnefndar að tekið verði núna til skoðunar og lagt kalt mat á hvort félagafrelsisákvæði lífeyrissjóðanna sé ekki brot á stjórnarskránni. Það er mjög óeðlilegt að lögbundnar lífeyrissjóðsgreiðslur sem einstaklingur greiðir skuli fara inn í fyrir fram ákveðinn sjóð í ljósi þess í hvaða stéttarfélag hann greiðir. Þess vegna beini ég því til iðnaðarnefndar að þetta verði jafnframt tekið til skoðunar.

Það er svo sem ekki fleira um þetta að segja að sinni. Hér fer fram 1. umr. Ég tek undir þá gagnrýni sem hefur komið fram í þessari umræðu, að iðnaðarmálagjaldið skuli ekki vera afnumið strax. Það er jafnólöglegt að hafa það inni áfram og það var fyrir dóm Evrópudómstólsins þó að það sé búið að breyta ákvæðum í lögum eins og stendur hér í frumvarpinu í hvað eigi að nota peningana. Það er lagt hér til að tekjunum verði varið til verkefna á sviði menntunar og nýsköpunar í iðnaði eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum. Þetta er sama brotið að mínu mati, þess vegna finnst mér svolítið hæpið að bera þetta svona fram í stað þess að segja að lög um iðnaðarmálagjald falli brott.

Nú situr einn hv. þingmaður hér í salnum og kannski bið ég hann um að athuga það þegar þetta fer til nefndar á ný hvort það sé ekki rétt að gera hreinlega breytingartillögu um að lög um iðnaðarmálagjald verði felld brott þannig að við þurfum ekki að sitja uppi með þennan draug sem ríkisstjórnin leggur hér til.

Það hefur tvisvar reynt á málið fyrir Hæstarétti. Hann hefur í bæði skiptin dæmt ríkinu í vil, eða Samtökum iðnaðarins, en nú er Mannréttindadómstóll Evrópu búinn að hrinda þessu áliti Hæstaréttar og þá er komin í það niðurstaða og þarf vonandi ekki að eyða meiri peningum í akkúrat þessa réttarspurningu sem aðilar stóðu frammi fyrir.

Virðulegi forseti. Ég læt þessar hugleiðingar mínar duga hér í 1. umr. og áskil mér svo rétt til að taka aftur til máls um málið.