138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[17:07]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er svolítið sérkennileg umræða og kannski ekki heldur þinginu og málefninu til neins framdráttar. (Gripið fram í: Hver byrjaði?) Ég er stödd hér í salnum, virðulegi forseti, og skil ekki alveg þessa umræðu. Ég skil það vel að hv. þingmenn hafi kallað eftir mér. Ég fylgdist engu að síður með umræðum úr fjarlægð til að hafa helstu spurningar á hreinu. Ég vil líka að það komi fram að í upphafi flutti ég málið með ræðu. Þeir hv. þingmenn sem hér er um að ræða fóru báðir í andsvör við mig og báru þar fram spurningar. Ég vil meina að ég hafi svarað þeim eftir bestu getu og bestu samvisku. Ég vona og trúi að við munum eiga slíkt samtal áfram. Hv. þingmenn eiga von á því að ég fari hér í lokaræðu og þá getum við vonandi rætt málið áfram á málefnalegum nótum. Ég held því að menn þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því að ég sé eitthvað kvíðin við að ræða þetta mál. Ég fer hér á mælendaskrá og hv. þingmenn og ég getum átt um þetta gott, málefnalegt samtal. Ég held að nú sé nóg komið af þessum leik. (Gripið fram í: Hver byrjaði?)