138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[17:19]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur þakka fyrir umræðuna sem hefur átt sér stað í dag. Ég veit að í þessari umræðu hefur komið fram ágætisveganesti fyrir nefndina til þess að vinna úr. Nokkrum fyrirspurnum var beint til mín um þetta mál, m.a. um það hvort þetta væri viðbót við fjárlögin. Svo er ekki. Þessi gjaldtaka hefur ávallt verið innan ramma iðnaðarráðuneytisins þannig að þetta mun ekki koma inn sem nýr liður í fjárlögum. Við ætlum að afnema þessa gjaldtöku.

Það var spurt eftir því hér áðan af hverju lögin væru ekki afnumin strax og af hverju þau væru ekki felld úr gildi samkvæmt frumvarpinu. Það er einfaldlega svo að við þurfum lagastoð til þess að uppfylla skilyrði Mannréttindadómstólsins. Við þurfum lagastoð fyrir framkvæmdinni út árið. Ástæðan fyrir því að gjaldtökunni er ekki hætt er sú að við erum á miðju ári.

Hér hefur einnig verið fjallað um mögulegar endurgreiðslur. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur velt því upp að menn ættu að endurgreiða þetta fjögur ár aftur í tímann. Það getur orðið býsna snúið, virðulegi forseti, vegna þess að í þessu samhengi þurfa menn að átta sig á því að þetta er gjaldfært. Menn geta hvorki greitt gjaldið til baka né upphæðina sem þeir hafa fengið. Þeir gátu nýtt gjaldið á móti.

Virðulegi forseti. Við höfum heyrt það hér í dag að iðnaðarnefnd ætlar sér að fjalla vandlega um þetta mál. Þetta er afar áhugavert mál fyrir okkur hér í þinginu, vegna þess að þetta snýst auðvitað um vandaða stjórnsýslu og um lög sem standist mannréttindasáttmála. Í grunninn fjallar þetta mál ekki um það að gjaldtakan sjálf brjóti í bága við 11. gr. mannréttindasáttmálans, heldur framkvæmdin á henni. Það ætti að kenna þessu þingi ýmislegt um vinnubrögð. Við verðum að fara í gegnum dóminn og tryggja það að við séum með lagalegar undirstöður undir svona verkefni, gjaldtökur og framkvæmdina, hvernig því er ráðstafað.