138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[17:24]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Síðasta athugasemd hv. þingmanns var nú svolítið sérstök í ljósi þess að þessi lög lifðu góðu lífi (Gripið fram í.) í þau 18 ár sem Sjálfstæðisflokkurinn var hér við (Gripið fram í.) stjórn.

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður vilji að ég svari spurningum hans og ég vona að hann gefi mér þá frið til þess. Hann heldur því fram að ég túlki dóminn út og suður. Svo er alls ekki, ég segi bara nákvæmlega eftir hljóðan dómsins að samkvæmt honum eru lögin vissulega mannréttindabrot.

Hv. þingmaður getur leikið sér að því að toga orð mín út og suður, en það verður ekki. Frumvarpið verður lagt fram vegna þess að ríkisstjórnin drífur í því að viðurkenna það að hér hefur verið framið mannréttindabrot samkvæmt dómnum. Við viðurkennum dóminn, annars værum við ekki með þetta mál, virðulegi forseti, hér í þinginu og hefðum ekki brugðist svona hratt við. Dómurinn féll 27. apríl. Innan við mánuði síðar var frumvarpið tilbúið.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að sitja undir svona umræðu þar sem menn teygja orð manns og toga og gefa í skyn að hér sé verið að túlka dóminn eftir eigin hentugleika. Við erum einfaldlega að bregðast við honum með þessu frumvarpi. Ég hélt að hv. þingmaður mundi fagna því með okkur að ríkisstjórnin hefði drifið í því að bregðast við dómnum. Það er akkúrat það sem við erum að gera hér. Ég vona að hv. þingmaður og ég getum rætt málefnalega saman, en ekki með þessum hætti sem hv. þingmaður gerði hér í ræðustól.