138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[17:28]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það hefur farið illa í hv. þingmann eða aðra þingmenn að ég skyldi hafa komið hér upp undir liðnum um fundarstjórn biðst ég afsökunar á því ef ég hef sagt eitthvað sem hefur sært blygðunarkennd manna hér inni. Ég biðst afsökunar á því ef það hefur farið illa í menn og þeir tekið því með þeim hætti að ég væri að gera lítið úr þeirra störfum. Það var alls ekki ætlun mín. Ég vona að við getum afgreitt það mál hér út af borðinu með þessari afsökunarbeiðni.

Virðulegi forseti. Um endurgreiðslu oftekinna skatta sem hv. þingmaður talaði hér um gilda sérstök lög. Um mögulegar endurgreiðslur verður fjallað algjörlega óháð þessu máli.

Enn og aftur segi ég: Þetta frumvarp er ekkert annað en viðbragð við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Þessi lög voru dæmd sem brot á 11. gr. Þetta er viðbragð við því og viðurkenning á því.