138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[17:29]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að það hafi ekki farið fram hjá hæstv. ráðherra að ég tel gott að frumvarpið sé komið fram, það sé gott að hæstv. ríkisstjórn hafi drifið í því að bregðast við niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Hæstv. ríkisstjórn drífur þá í einhverju, því fer nú ekki fyrir í öðrum málum.

Ég er líka sammála hæstv. ráðherra um það að málið er áhugavert. Það er áhugavert vegna þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kveðið upp dóm um að íslenska ríkið hafi brotið gegn mannréttindum borgara sinna. Fyrir vikið hljótum við að ræða stöðuna sem kemur upp í kjölfarið og hver viðbrögðin eiga að vera, sérstaklega við sem höfum áhuga á mannréttindamálum og því að borgararnir eigi ekki að þurfa að sæta því að á þeim sé brotinn réttur.

Ég tel að í þessum dómi felist mikil tíðindi. Dómurinn setur gjaldtöku og skattheimtu ríkisins á hendur ýmsum aðilum í samfélaginu í uppnám. Í kjölfarið spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún muni beita sér fyrir því að skipa nefnd eða gera úttekt á því hvort ýmis önnur gjöld og skattar eins og búnaðargjaldið, skyldugreiðslur til stéttarfélaga, fiskiræktargjald og stefgjöld standist ákvæði 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 2. mgr. (Forseti hringir.) 74. gr. stjórnarskrárinnar.