138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[17:32]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessum ummælum. Ég tel að það sé mikilvægt að úttektin verði heildstæð og menn fari yfir heildarsviðið í stað þess að ráðuneytin fari hvert í sínu horni yfir málin án heildstæðrar úttektar.

Menn hafa haft uppi efasemdir um hvort sú leið sem valin er í frumvarpinu sé skynsamleg. Menn hafa bent á að með því að láta gjaldið renna í ríkissjóð í stað þess að það renni til Samtaka iðnaðarins eins og nú er sé í rauninni farin ákveðin fjallabaksleið sem stenst kannski formkröfur Mannréttindadómstólsins en hefur í sjálfu sér ekki mikla þýðingu fyrir þá sem þurfa að standa skil á gjaldinu. Mig langar til að spyrja hvort hæstv. ráðherra sé opinn fyrir því að fara einhverjar aðrar leiðir eða grípa til einhverra annarra úrlausna, t.d. þeirra sem nefndar hafa verið í umræðunni, til að bregðast við dómi Mannréttindadómstólsins.