138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[17:34]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel allt koma til greina. Þegar við veltum því fyrir okkur með hvaða hætti best væri að málið kæmi inn í þingið veltum við upp fjöldamörgum leiðum. Við áttum líka góð samtöl við Félag húsasmíðameistara, Samtök iðnaðarins og fleiri aðila. Ég tel að nefndin eigi að fara vandlega yfir þetta og komist þingmenn að því að önnur leið sé betri en sú sem hér er farin er ekkert heilagt fyrir mér í þeim efnum. Ég vil einfaldlega að við bregðumst við dómnum og gerum það með sem allra bestum hætti. Ég veit að málið á eftir að fá góða umfjöllun í iðnaðarnefnd og þar mun ég líka fúslega veita þingmönnum upplýsingar um hvaða aðrar leiðir voru uppi á borði um tíma hjá iðnaðarráðuneytinu, hvaða aðrar leiðir við skoðuðum og hvers vegna þessi varð ofan á.

Við töldum að þessi leið væri farsælust og skynsamlegast að gera þetta svona þar sem svo langt er liðið á árið og innheimta gjaldanna þegar hafin. En eins og ég segi er ekkert heilagt í þeim efnum. Ég geri ráð fyrir því að nefndin skoði þetta og vegi og meti hvort einhver önnur leið sé betri og þá er það svo. Markmiðið á að vera — og ég held að við séum sammála um markmiðið, ég og hv. þingmaður — að gjaldtökunni verði hætt og við lendum málinu eins farsællega og kostur er.