138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[17:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég get tekið undir það með hv. þm. Pétri Blöndal að full ástæða sé til að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar. Það er hlutverk stjórnlaganefndar, þjóðfundar og stjórnlagaþings sem verður vonandi að veruleika á hausti komanda. Ég get lýst þeirri skoðun minni í ræðustól að það eigi að vera erfitt að breyta stjórnarskránni en ég tel jafnframt að það sé of erfitt eins og málum er nú háttað. Ég tel að t.d. kæmi til greina að hægt væri að breyta stjórnarskránni með einfaldri ákvörðun Alþingis sem síðan væri borin undir atkvæði þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin gæti þá staðfest stjórnarskrárbreytinguna. Ég held að það væri nægur varnagli þannig að stjórnarskránni væri ekki breytt eftir hentistefnu með skömmum fyrirvara af meiri hluta þings. Hann yrði alltaf að hafa meiri hluta þjóðarinnar með sér.