138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[17:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þingmaður nefndi stjórnlagaþing þá er það undir sömu sökina selt. Það getur ekkert ákveðið. Það hefur bara tillögurétt, (RM: Ráðgefandi.) það er ráðgefandi, þannig að á endanum tekur Alþingi ákvörðun og hver þingmaður samkvæmt sinni sannfæringu. Þetta finnst mér mikill ljóður. Ég held að allur þingheimur ætti nú þegar að hafa tilbúið frumvarp sem breytir 79. gr. í þá veru að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingu á stjórnarskránni, ef svo skyldi fara að það yrði þingrof og kosningar, sem maður veit aldrei hvort gerist. Þá þarf það að vera tilbúið. Það gerðist fyrir ári síðan og þá misstu menn af gullnu tækifæri. Ég minnti aftur og aftur á að menn ættu að hafa svona breytingu tilbúna.

Auðvitað þurfa breytingar á stjórnarskránni að vera mjög seigfljótandi. Ég hef lagt til að við breytingar á stjórnarskrá skuli um 60% allra kosningarbærra manna greiða því atkvæði, ella taki það ekki gildi. Jafnvel meira, 65%, ég er alveg tilbúinn að ræða það, þannig að alltaf verði góð sátt um breytingar á stjórnarskrá.

Ég legg til að hv. þingmaður hafi slíkt frumvarp tilbúið, ef það skyldi allt í einu gerast að ríkisstjórnin færi frá. Um það eru vaxandi merki og hafa verið lengi en ekkert gerist þar frekar en annars staðar. Frumvarpið þyrfti að vera tilbúið þannig að ef við færum í kosningar gætum við skellt því inn á þing, samþykkt það og þá tæki það gildi eftir að næsta þing hefði samþykkt það aftur.