138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[17:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru fínar ábendingar hjá hv. þingmanni. Við erum hins vegar í þeim veruleika að það var ekki ráðist í þær breytingar sem hv. þingmaður talaði um á síðasta þingi og það hefur enga þýðingu í sjálfu sér, finnst mér, að rifja upp hvers vegna það var eða af hverju svo fór sem fór. Við erum í þeirri stöðu núna að við getum ekki sett stjórnlagaþing eða sett af stað stjórnlagavinnu utan Alþingis sem felur í sér bindandi niðurstöðu. Við erum í þeirri stöðu að tillögur sem koma frá stjórnlagaþingi verða að hljóta staðfestingu hjá Alþingi, svo verður þingrof og nýtt Alþingi þarf að staðfesta þær. Það er sá veruleiki sem við stefnum einfaldlega í.

Það er samhljómur á milli margra í þinginu um nauðsyn þess að þessi löggjafarsamkoma og fulltrúaþingmannasamkoma hér komi að þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á stjórnarskránni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé skylda mín og hlutverk sem þjóðkjörins alþingismanns að koma að þeim breytingum. Enn fremur hef ég áhuga á því að koma að þeirri vinnu sem þjóðfélagsþegn og einstaklingur sem hefur fylgst með þjóðmálum um langa tíð. Í mínum huga er í sjálfu sér ekkert athugavert við það. Með þeirri framkvæmd sem við festum senn í lög um breytingar á stjórnarskránni er tryggt að aðkoma þjóðarinnar sé með margvíslegum hætti, að fulltrúar hennar fjalli um málið á a.m.k. þremur ólíkum stöðum. Ég held að það sé vönduð og efnismikil meðferð, enda þarf að mínu mati að ráðast í umtalsverðar breytingar á stjórnarskránni í þetta sinn.