138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[18:13]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var aðeins of sein að berja í borðið til að fara í andsvar við hv. þm. Róbert Marshall sem er formaður allsherjarnefndar en þar sem það kemur fram í nefndarálitinu að þær breytingar sem verið er að leggja til eru lagðar fram af fulltrúum nær allra flokka vildi ég gjarnan spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson sömu spurninga.

Ég hef verið að velta svolítið fyrir mér gildi atkvæðaseðla og hvort það hafi verið rætt sérstaklega í nefndinni. Ekki endilega bara varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur heldur atkvæðagreiðslur almennt, hvort löggjöfin á Íslandi sé nógu skýr varðandi það hvernig á að meta hvenær atkvæðaseðill er gildur og hvenær ekki. Ég tók þátt í kosningaeftirliti í forsetakosningunum í Úkraínu og þar var farið í gegnum kosningalöggjöfina og talað um þessa þætti, hvenær á að dæma seðil gildan og hvenær á að dæma hann ógildan. Ég var þarna á vegum ÖSE en afar áhugavert er að þar er áherslan lögð á að telja atkvæðaseðil gildan ef vilji kjósanda er skýr. Það væri mjög áhugavert að heyra frá hv. þm. Birgi Ármannssyni hvort þetta sé nógu skýrt í íslenskum lögum, að það sé ekki hægt að dæma atkvæðaseðla ógilda vegna þess að x-ið er sett fyrir utan kassann eða menn skrifa eitthvað á seðilinn ef það er mjög skýrt hver vilji kjósanda er.

Síðan hef ég líka verið að velta fyrir mér öðru sem fellur kannski ekki undir þetta, en í forsetakosningunum í Úkraínu var t.d. ekki nóg með að það væri hægt að strika yfir þá sem voru í framboði heldur var einnig lína sem bauð upp á eitthvað annað, þ.e. að velja hvorugan kostinn. (Forseti hringir.) Gæti verið að í staðinn fyrir að segja bara já eða nei (Forseti hringir.) ætti einnig að vera í boði að kjósanda líkaði við hvorugan valkostinn?