138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[18:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur, sérstaklega vegna þess að maður hefur stundum á tilfinningunni, bæði við framkvæmd kosninga hér á landi og raunar einnig erlendis, að ekki sé alltaf samræmd framkvæmd á því hvenær atkvæðaseðill teljist gildur og hvenær ekki. Þetta er ekki atriði sem við fórum sérstaklega yfir í meðförum þessa máls í allsherjarnefnd en ég hygg hins vegar að þetta sé mál sem full ástæða er til að gefa gaum, hvort með einhverjum hætti sé hægt að gera löggjöfina skýrari þannig að vafamálum fækki og framkvæmdin verði hugsanlega skýrari.

Ég held að það sé frekar almennt viðhorf meðal þeirra sem koma að þessum málum að það beri eftir föngum að leita eftir vilja kjósandans, að túlka vafamál þannig að vilji kjósandans nái að koma fram. En þarna geta auðvitað verið ákveðin álitaefni, hvenær er vilji kjósandans nægilega skýr og hvenær ekki? Það verður kannski aldrei hjá því komist að upp komi einhver deilumál. En ef við getum lagað kosningareglur hérna almennt þannig að slíkum vafamálum fækki held ég að það sé ávinningur.

Varðandi síðari spurningu hv. þingmanns vildi ég segja það að ég held að það sé einfaldlega viðfangsefni þeirra sem efna til kosninga að setja fram skýra valkosti. Ef kjósandi getur ekki sætt sig við annan hvorn þeirra kosta, t.d. í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða einhvern þeirra kosta sem eru í boði (Forseti hringir.) á kjósandi alltaf þann möguleika að skila auðu.