138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

484. mál
[19:14]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Anna Margrét Guðjónsdóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Umsagnir bárust frá ríkisskattstjóra, Persónuvernd, Tryggingastofnun ríkisins, Vinnueftirlitinu, Viðskiptaráði Íslands, ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun.

Frumvarpi þessu er ætlað að mæta gagnrýni Eftirlitsstofnunar EFTA á efni laga nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, að því er varðar skipulag þeirrar stjórnsýslu sem viðhöfð er við framkvæmd laganna. Í rökstuddu áliti stofnunarinnar til íslenskra stjórnvalda kemur meðal annars fram að lögin feli í sér kröfur sem jafna megi til þess að sækja þurfi um leyfi fyrir fram til að geta hafið starfsemi hér á landi og telur stofnunin það fela í sér hindrun á frjálsum þjónustuviðskiptum skv. 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Stofnunin leiðir þessa niðurstöðu af því að í fyrsta lagi þurfi þjónustuaðili að veita Vinnumálastofnun upplýsingar átta virkum dögum áður en þjónustan hefst, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna, í öðru lagi að Vinnumálastofnun skuli veita skriflega staðfestingu um móttöku gagna sem þjónustuveitandanum er skylt að afhenda notendafyrirtæki áður en þjónustan er veitt, sbr. 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 11. gr. laganna, og í þriðja lagi að láti fyrirtæki hjá líðast að tilkynna um fulltrúa sinn til Vinnumálastofnunar eða um skipti á fulltrúa sé því óheimilt að veita þjónustu hér á landi, sbr. 4. mgr. 10. gr. laganna. Í rökstuðningi sínum vísar stofnunin meðal annars til dómafordæma Evrópudómstólsins í máli nr. C-168/04 Framkvæmdastjórnin gegn Austurríki, í máli nr. C-445/03 Framkvæmdastjórnin gegn Lúxemborg og í máli nr. C-490/04 Framkvæmdastjórnin gegn Þýskalandi.

Með frumvarpinu er lagt til að fyrirtæki sem hyggjast veita þjónustu hér á landi veiti Vinnumálastofnun þær upplýsingar sem tilgreindar eru í 1.-5. tölulið 1. mgr. 8. gr. laganna eigi síðar en sama dag og starfsemi þeirra hefst hér á landi í stað átta virkum dögum áður en þjónustan er veitt. Einnig er lagt til að skýrar verði kveðið á um að eingöngu sé verið að kanna hvort starfsmenn sem koma hingað til lands á vegum erlendra þjónustuveitenda njóti almannatryggingaverndar í heimaríki en ekki að tilgangurinn sé að koma í veg fyrir að hlutaðeigandi starfsmenn komi til landsins til starfa. Er t.d. nægjanlegt að upplýst sé að starfsmenn hafi svokölluð E-101 vottorð, en breytingin á orðalagi 1. málsl. 1. mgr. 8 gr. er í samræmi við væntanlegar breytingar á almannatryggingareglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Enn fremur er undirstrikað að fulltrúi fyrirtækis geti verið einn af starfsmönnum þess sem starfa tímabundið hér á landi enda þótt slíkt sé ekki nauðsynlegt. Nægjanlegt er að fyrirtækið tilkynni um fulltrúann sama dag og starfsemi þess hefst hér á landi. Þá er lagt til að fellt verði brott ákvæði 4. mgr. 10. gr. laganna þar sem kveðið er á um að fyrirtæki sé óheimilt að veita þjónustu hér á landi hafi það látið hjá líða að tilkynna um fulltrúa sinn til Vinnumálastofnunar eða um skipti á fulltrúa.

Við umfjöllun nefndarinnar á frumvarpi því er varð að lögum nr. 45/2007 var áhersla lögð á að við framkvæmd eftirlitsins yrði gætt meðalhófs gagnvart eftirlitsskyldum aðilum þannig að samræmst fái skuldbindingum sem á íslenska ríkinu hvíla samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin er enn sömu skoðunar og telur að þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu komi til móts við þær athugasemdir sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur viðhaft að þessu leyti án þess þó að hafa mikil áhrif á þá stjórnsýslu sem Vinnumálastofnun hefur tileinkað sér við framkvæmd laganna með tilliti til reglna stjórnsýsluréttarins. Í því sambandi leggur nefndin jafnframt áherslu á mikilvægi þess að þær breytingar sem lagðar eru til á lögunum breyti ekki tilgangi þeirra. Þrátt fyrir að miklar breytingar hafi orðið á innlendum vinnumarkaði frá því að lögin voru samþykkt á Alþingi hafa þau mikilvægt gildi í því skyni að leikreglur sem gilda á innlendum vinnumarkaði séu virtar. Telur nefndin því þýðingarmikið að Vinnumálastofnun fái auknar heimildir til að beita dagsektum fari fyrirtæki ekki að fyrirmælum stofnunarinnar um viðunandi úrbætur til að uppfylla skilyrði laganna í því skyni að tryggja betur að ákvæði laganna verði virt. Fram hafa komið þau sjónarmið að mikilvægt sé að dagsektirnar séu aðfararhæfar til að ákvæðið nái tilætluðum árangri og leggur nefndin fram breytingartillögu við 4. gr. í þeim tilgangi.

Nefndin hefur kynnt sér efni rökstudds álits Eftirlitsstofnunar EFTA vegna ákvæða 5. og 7. gr. laganna. Þar er um að ræða ákvæði sem fjalla um launarétt starfsmanna í veikinda- og slysatilvikum og áskilnað um að þeir skuli vera slysatryggðir en efni þessara ákvæða er í samræmi við skilyrði laga og kjarasamninga um þetta efni. Hefur því verið litið á efni þessara ákvæða sem lágmarksréttindi að því er varðar rétt starfsmanna á innlendum vinnumarkaði að þessu leyti sem eðlilegt er að allir starfsmenn njóti þann tíma er þeir starfa hér á landi, óháð því hvort þeir starfa hér til lengri eða skemmri tíma. Þykir jafnframt eðlilegt að sömu skyldur gagnvart starfsmönnum hvíli á þeim fyrirtækjum sem starfa á innlendum vinnumarkaði. Nefndin telur því mikilvægt að ákvæðin verði áfram í lögunum líkt og lagt er til í frumvarpinu. Á það ekki síst við þar sem um lágmarksréttindi er að ræða sem og í ljósi þess að efni þeirra gildir með fyrirvara um betri rétt starfsmanna samkvæmt ráðningarsamningi við hlutaðeigandi fyrirtæki, kjarasamningi eða löggjöf í því ríki þar sem þeir starfa að jafnaði.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 4. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi: Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um dagsektir eru aðfararhæfar.

Hv. þingmenn Ögmundur Jónasson, Ásmundur Einar Daðason og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið skrifa hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Pétur H. Blöndal, Margrét Pétursdóttir, Guðbjartur Hannesson, Óli Björn Kárason og sú sem hér stendur, Anna Margrét Guðjónsdóttir.