138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[19:59]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Við fjöllum um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun og það nefndarálit sem liggur fyrir og ég rita undir með fyrirvara. Sá fyrirvari lýtur að smávægilegri breytingu sem gerð var á áætluninni hvað varðar Dýrafjarðargöng. Sett er smávægileg upphæð í þá framkvæmd sem er ætluð til undirbúnings verksins. Ég get í sjálfu sér tekið undir það sem sagt er í nefndarálitinu að það er skoðun nefndarinnar að gerð jarðganga á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar efli samgöngur á milli byggða sem nú eru tengdar saman með malarvegum og verða fyrir verulegum samgöngutruflunum yfir vetrartímann. Mín skoðun á þessu máli er fyrst og fremst sú að ekki er tímabært að raða niður í hinum stærri framkvæmdum sem að mínu mati eiga að falla undir áætlun sem nær til lengri tíma en sú sem við fjöllum um nú. Það mætti hugsanlega líta á það sem villandi framsetningu að setja svo stóra framkvæmd inn í þessa stuttu áætlun en með svo takmarkað fé. Að öðru leyti styð ég þessa samgönguáætlun og tillögu til þingsályktunar heils hugar og það nefndarálit sem fyrir liggur.

Áætlunin ber með sér að nú er önnur tíð. Það er af sem áður var þegar gríðarlegum fjármunum var varið í samgönguframkvæmdir og þá sérstaklega á árunum 2007–2009. Á þeim tíma var um að ræða alger metár í framlögum hins opinbera til samgönguframkvæmda. Ég held að á árinu 2008 hafi verið ráðist í framkvæmdir fyrir um 30 milljarða þannig að töluvert hefur dregist saman. Engu að síður, ef ég fer rétt með, verður framkvæmt fyrir um 11 milljarða á yfirstandandi ári.

Ég ætla að taka til nokkur atriði í þeim fimm meginmarkmiðum samgönguáætlunar sem við fjöllum um. Í fyrstu meginmarkmiðunum um greiðari samgöngur er fjallað sérstaklega um að stefnt verði að greiðari umferð almenningssamgangna og endurskoðun á tilhögun og fjármögnun þeirra með það að markmiði að auka hlut almenningssamgangna í þjónustu við íbúa. Ég held að þetta sé tímabært markmið, þ.e. endurskoðunin á tilhögun og fjármögnun til að auka hluta almenningssamgangna. Ég fagna því sérstaklega að vinna á að eflingu reiðhjólanotkunar, m.a. með markvissri uppbyggingu reiðhjólastíga.

Í markmiði um hagkvæmni, uppbyggingu og rekstur samgangna eru nokkur atriði sem mig langar til að staldra við. Í þingsályktunartillögunni um samgönguáætlun segir, með leyfi forseta:

„Skoðaðir verði áfram valkostir og aðferðir við gjaldtöku af samgöngum með tilliti til jafnræðis samgöngugreina og notenda samgangna. Unnið verði að undirbúningi nýrrar framtíðarskipunar gjaldtöku sem taki mið af því að notandinn greiði eftir notkun og byggð er á nýjustu tækni m.a. fyrir umferð á vegum.“

Þetta er atriði sem töluvert hefur verið í umræðunni undanfarið, þ.e. hvernig hægt sé með nýrri tækni að innheimta gjöld sem geti staðið undir þeim samgönguframkvæmdum sem við viljum ráðast í til að efla byggðir, stytta leiðir og auka öryggi. Horft hefur verið til lengri tíma á margvíslegar slíkar framkvæmdir og nægir að nefna framkvæmdir á borð við tvöföldun Suðurlandsvegar og Vaðlaheiðargöng, svo nokkur dæmi séu nefnd. Þetta eru fjölfarnar leiðir, þar sem er um fjallvegi að fara eða er töluverð slysahætta eins og t.d. slysatíðnin á Suðurlandsvegi sýnir. Það verður með einhverjum hætti að finna aðferð til að fjármagna framkvæmdir sem þessar. Það er m.a. viðfangsefni starfshóps á vegum hæstv. samgönguráðherra að útfæra leið til að svo megi verða. Sú leið felst einkum í því að menn taki upp samræmt umferðargjaldskerfi. Slíkt kerfi verður ekki í þeim dúr sem við þekkjum úr Hvalfjarðargöngunum með sérstökum bás þar sem ökumenn staldra við eða hafa sérstaka lykla og keyra í gegn, heldur yrði það heildstætt kerfi fyrir allt landið. Það fæli í sér að innheimt yrði t.d. ákveðið gjald fyrir að aka á tvöföldum vegi eða vegi með aðskildum akreinum, sérstakt gjald fyrir að aka í gegnum jarðgöng og sérstakt gjald fyrir að aka á holóttum malarvegi. Því gjaldi þyrfti þó óneitanlega að vera í hóf stillt. Það mætti t.d. sjá fyrir sér að innheimta bílastæðagjalda í höfuðborginni og í stærri bæjarfélögum á borð við Akureyri færi fram með sama kerfi sem byggði þá á sérstakri GPS-tækni. GPS-kubbur væri í hverri einustu bifreið á landinu og sendi upplýsingar í ákveðið miðlægt kerfi. Upplýsingarnar yrðu kóðaðar þannig að ekki væri hægt að persónugreina þær þegar búið væri að innheimta gjöldin.

Þetta er ein leið sem menn hafa horft til, til að fjármagna umfangsmiklar framkvæmdir sem ekki rúmast innan almennra fjárveitinga til samgönguáætlunar. Það er mat sérfræðinga á þessu sviði að unnt verði að taka upp slíkt kerfi ekki síðar en 2016–2017. Ég fagna þeim hugmyndum sem uppi eru í þessum efnum. Ég hef sjálfur fengið að taka þátt í þeirri vinnu og er mjög bjartsýnn á að hægt sé að útfæra þessa leið svo vel sé, svo ekki sé nú talað um að með því væri hægt að færa til samræmis það ójafnvægi sem hefur skapast með tilkomu bifreiða eins og rafmagnsbifreiða eða bifreiða sem nýta ekki hefðbundið eldsneyti eins og dísilolíu eða bensín. Með þessum hætti væri hægt að fella niður eldsneytisgjöldin og taka upp eitt samræmt umferðargjaldskerfi.

Ég vil í framhaldi af þessu fjalla um þriðja markmið samgönguáætlunar sem er um umhverfislega sjálfbærar samgöngur. Stefnt er að því að lokið verði að breyta skattlagningu eignarhalds og notkunar bíla með þeim hætti að neyslugrannir bílar, t.d. tvinnbílar, tengiltvinnbílar og bílar sem nota vistvænt eldsneyti og bílar sem nota gasolíu sem eldsneyti, verði fýsilegri kostur en nú er. Unnið verði að þessu í samvinnu við fjármálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið. Þá verði unnið að breytingum á kröfum í útboðum en markmiðið er að auka hlut vistvænna ökutækja í sérleyfisakstri. Auknar verði kröfur til opinberra stofnana og fyrirtækja um að þær noti vistvæn ökutæki í starfsemi sinni og að efldar verði rannsóknir sem stuðla að umhverfisvænum samgöngum, sérstaklega rannsóknum er lúta að notkun vistvæns eldsneytis. Aukið verði hlutfall íblöndunar með lífolíu eða etanolíu í eldsneyti. Ég vil geta þess sérstaklega að mér er kunnugt um stuðning samgönguráðuneytisins við rannsóknastarfsemi Siglingastofnunar og ræktun á repju til að búa til eldsneyti á bíla. Ég er afar sáttur við þá áherslu ráðuneytisins. Ég hrósa hæstv. ráðherra fyrir áhuga hans á því máli. Það er vissulega framtíðarmál og skiptir máli að hugað sé að því.

Í fjórða meginmarkmiði áætlunarinnar er fjallað um öryggi í samgöngum. Þar segir að stefnt skuli markvisst að því að auka öryggi samgangna hér á landi og unnið verði að því á gildistíma áætlunarinnar að draga verulega úr líkum á alvarlegum slysum eða banaslysum á öllum sviðum samgangna. Gera á sérstakar aðgerðaáætlanir á hverju sviði samgangna sem miða að því að ná þessu markmiði og vinna áfram að öflugum rannsóknum sem stuðla að öryggi í samgöngum og vinna markvisst að miðlun upplýsinga í samgöngum. Meðal þeirra sjónarmiða sem tekið er tillit til í nefndaráliti samgöngunefndar er það sem mætti fella undir fimmta meginmarkmið samgönguáætlunar en það er byggðaþróun. Lögð er sérstök áhersla á það í áætluninni að við ákvörðun um forgangsröðun verkefna verði horft til uppbyggingar á einstökum svæðum í samræmi við áherslur og svæðaskiptingu sóknaráætlunar fyrir Ísland og horft verði til mikilvægra einstakra framkvæmda sem hvata til að skapa heildstæð atvinnu-, búsetu- og þjónustusvæði.

Það liggur fyrir hjá ríkisstjórninni að mótuð verði heildstæð stefna fyrir Ísland í þágu atvinnulífs og samfélags. Markmið þeirrar áætlunar, sóknaráætlunar fyrir Ísland, er að landið skipi sér aftur í fremstu röð í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífsgæðum. Með sóknaráætlun er gert ráð fyrir samþættingu opinberra áætlana. Þannig verði stuðlað að betri nýtingu fjármuna og öflugu samstarfi stjórnsýslustiga og stofnana. Gert er ráð fyrir að sú samþætting og samræmda forgangsröðun liggi fyrir í haust og geti breytt tímasetningum og röðun framkvæmda í þessari áætlun. Ég tel þetta afar jákvætt. Það er tímabært að menn horfi á alla myndina, líti til þeirra áætlana sem verið er að gera á ólíkum sviðum og reyni eftir fremsta megni að sameina þær.

Þess hefur verið getið í umræðunni að fjöldi verka hefur verið skorinn niður í áætluninni. Ég vil sérstaklega geta þess að í áætluninni á t.d. ekki að finna nýja leið og nýja brú yfir Hornafjarðarfljót sem er afar miður. Þar hafa skipulagsmálin að vísu ekki verið nógu langt komin til að menn væru búnir að ákveða, á fyrri stigum, upphæðina fyrir þeirri mikilvægu samgöngubót. Ég held að allir sem aka fyrir suðausturhorn landsins og þar með Höfn í Hornafirði átti sig á nauðsyn þess að þarna verði gripið til umfangsmikilla aðgerða í samgöngumálum. Á móti kemur að mörg stór verkefni eru á dagskrá núna í kjördæminu þar sem ég þekki best til, Suðurkjördæmi. Þar má fyrst nefna að ákveðið hefur verið að ráðast í tvöföldun Suðurlandsvegar og er búið að bjóða út þann verkkafla og hann hefst senn. Áfram verður unnið að svokölluðum Suðurstrandarvegi og þann 20. júlí verður ný höfn tekin í notkun í Bakkafjöru, svokölluð Landeyjahöfn. Þessi nýja siglingaleið til Vestmannaeyja er gríðarlega mikil bylting fyrir byggðarlagið í Eyjum og ekki síður uppi á landi því að þetta þýðir að hægt verður að sameina Suðurlandsundirlendið og Eyjarnar sem eitt atvinnusvæði og skapa mörg tækifæri til nýsköpunar í atvinnumálum sem ekki veitir af á þessum síðustu og verstu tímum.

Ég ætla að láta þetta gott heita um þessa tillögu til þingsályktunar sem góð samstaða var um í samgöngunefnd enda tíðarandinn slíkur að full þörf er á samstöðu um þessi brýnu viðfangsefni.