138. löggjafarþing — 139. fundur,  14. júní 2010.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[12:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Nú á síðustu dögum þingsins vil ég að það sé á hreinu af hálfu okkar framsóknarmanna að við viljum greiða fyrir störfum þingsins til að ljúka mikilvægum málum. Við höfum í störfum okkar hér lagt fram ákveðnar málamiðlanir til að geta lokið mikilvægum málum, sérstaklega þeim málum sem snerta fjárhagsmál heimilanna. Mörg heimili í landinu búa við mjög erfiða stöðu í dag og þess vegna er mjög mikilvægt að við þingmenn, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, náum saman um að ljúka þinginu á þokkalega siðsamlega góðum nótum og þetta lendi ekki í einhverju karpi, það reynum við að forðast. Þess vegna vil ég fyrir hönd okkar framsóknarmanna hvetja ríkisstjórnina til að setjast að samningaborðinu með okkur og ljúka stórum og mikilvægum málum í friði og sátt á þinginu þannig að þetta endi ekki í einhverju karpi í ræðustóli þingsins.