138. löggjafarþing — 139. fundur,  14. júní 2010.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[12:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil ræða um fundarstjórn forseta og þá sérstaklega hvernig forseti hyggst haga þinginu næstu daga og vikur. Í hv. félags- og tryggingamálanefnd hefur myndast afskaplega gott samstarf milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að vinna vel og ötullega að breytingum á lögum sem varða skuldavanda heimilanna. Sú vinna er að mínu mati ekki nægilega vel þroskuð og þess vegna hef ég ekki treyst mér til að flytja frumvörp sem ég veit ekki nákvæmlega hvernig líta út og hvernig virka.

Ég vil fara fram á það við hæstv. forseta að öll mál verði kláruð annað kvöld eins og til stendur nema þau mál sem varða skuldavanda heimilanna. Það verði unnið í nefndum fram til 24. júní og þá komi þingið saman eða 33 þingmenn og klári málin á 2–3 tímum. Þá gæti ég vel unað því að flytja málið.