138. löggjafarþing — 139. fundur,  14. júní 2010.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[12:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég get ekki orða bundist. Formaður Sjálfstæðisflokksins kallar fram þá hvatningu að við vöndum til verka. Ég kem upp til að fullvissa forseta um að í nefndinni sem ég hef verið starfandi formaður í, félags- og tryggingamálanefnd, höfum við unnið afskaplega vandaða vinnu, verið varfærin, jafnvel óhóflega varfærin að mínu mati, til að sætta sjónarmið. Ég sem formaður nefndarinnar treysti mér til að ljúka þessum málum fyrir áætluð þinglok án þess að hafa nokkra óþægindatilfinningu fyrir því að hér hafi ekki verið vandað til verka. Ég tel, frú forseti, mikilvægt að það komi skýrt fram.