138. löggjafarþing — 139. fundur,  14. júní 2010.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[12:15]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég held að ég geti tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa lagt áherslu á að þingstörfum verði lokið í sátt og menn nái samningum um þinglok. Þar skiptir auðvitað mestu máli að við náum einhverri lendingu varðandi skuldavanda heimilanna. Ég hygg að allir sem hér sitja, sama hvar í flokki þeir eru, vilji leysa þau vandamál sem varða heimilin í landinu. Við skulum hins vegar passa okkur á að klára þau mál þannig að sómi sé að og ekki verði gerð mistök í þeirri mikilvægu lagasetningu sem varða skuldavanda heimilanna. Þá er mikilvægt að þeir aðilar sem best þekkja til á sviði réttarfars í landinu, eins og réttarfarsnefnd, verði kallaðir að því löggjafarstarfi áður en málin eru kláruð. Sömuleiðis hlýtur þingið að hafa biðlund eftir því að Hæstiréttur Íslands felli dóm í myntkörfubílalánamálinu (Forseti hringir.) þannig að þingið geti greint þann dóm og mátað saman við það frumvarp sem (Forseti hringir.) til umfjöllunar er áður en það verður samþykkt.