138. löggjafarþing — 139. fundur,  14. júní 2010.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[12:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get verið mjög stuttorður. Ég tek undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að mikilvægt er að gengið sé þannig frá lagasetningunni að hún skapi ekki vandkvæði þegar kemur að því að framkvæma hana, að búið sé að girða fyrir öll hugsanleg deilumál sem geta stafað af túlkun einstakra ákvæða og það sé ljóst að þau frumvörp sem hér er gengið frá nái raunverulega þeim tilgangi sínum að skila hagsbótum til þeirra sem þau eiga að hjálpa. Það er mikilvægt að gengið sé frá þessu.

Ég segi svo fyrir sjálfan mig að mér finnst mikilvægara að gefa sér nokkra daga í þetta en að ljúka þinginu endilega á morgun eins og starfsáætlun gerir ráð fyrir.