138. löggjafarþing — 139. fundur,  14. júní 2010.

geislavarnir.

543. mál
[12:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um frumvarp til laga um geislavarnir, sem ég hef leyft mér að kalla úr þessum ræðustól við litla hrifningu sumra „stóra ljósabekkjamálið“. Með því er ég ekki að gera lítið úr því vandamáli sem sortuæxli og húðkrabbamein eru og er ekki að hlaupast undan þeirri baráttu með nokkrum hætti. Ég vil hins vegar benda á að með þessu er að mínu viti verið að gefast upp á verkefninu. Í stað þess að gera það sem tekið er fram bæði í frumvarpinu og nefndaráliti meiri hlutans að sýnt hafi að skili árangri, að auka fræðslu og leiðbeiningar um þetta mál, er verið að fara auðveldu leiðina og banna þetta. Menn ná ekki utan um vandamálið með því að banna það, ekki heildstætt, enn sem fyrr eru til sólarbekkir á sumum heimilum eða á þeim stöðum sem ekki er selt inn á þá. (Forseti hringir.) Þetta kemur ekki í veg fyrir að börn undir 18 ára aldri noti þá eða að þau verði fyrir áhrifum sólarljóssins. Mér finnst þetta ekki leysa vandamálið og þess vegna greiði ég atkvæði gegn þessu máli.