138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

reglur um þjóðfánann.

643. mál
[12:44]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar við ræddum þetta mál hér í þingsal fyrir nokkru í tengslum við það frumvarp sem ég flutti varð ég vissulega vör við það að þessi hugmynd hv. þingmanns hlaut mjög jákvæðar undirtektir hjá þeim sem tóku til máls undir því máli sem ég flutti. Ég hafði haldið að allsherjarnefnd mundi skoða þetta mál í tengslum við það mál en eins og ég sagði hér áðan verður það væntanlega ekki afgreitt fyrir þingfrestun.

Ég tek eftir því sem hv. þingmaður segir, og það kemur fram í þingsályktunartillögunni sjálfri, að forsætisráðuneytið eða forsætisráðherra geti sett reglur í þá veru sem hv. þingmaður óskar eftir. Ég mun að sjálfsögðu skoða það. En ég hefði haldið að þar sem hv. þingmaður hefur lagt málið fyrir þing og þar sem þingið er með breytingar á fánalögunum til meðferðar væri eðlilegt að þingið fengi að taka afstöðu til þess máls. Ég mun að sjálfsögðu íhuga það sem hv. þingmaður segir vegna þess að ég er sjálf opin og jákvæð fyrir að þessi leið verði farin. En ég hefði talið að það mundi styrkja málið ef þingið mundi líka taka afstöðu til þessa máls. Ef hægt er að afgreiða það núna fyrir þinglok, með þeirri breytingu sem hv. þingmaður talar um, mun ég styðja það mál.