138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

óeðlileg undirboð í vegagerð og byggingariðnaði.

408. mál
[12:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Það er nokkuð um liðið síðan ég lagði þessa fyrirspurn fram og verður að setja það fyrst og fremst á reikning þess sem hér stendur að málið kom ekki fyrr á dagskrá. Það var í tvígang þannig að ég gat einfaldlega ekki verið viðstaddur þá umræðu, en hæstv. ráðherra hefur fyrir nokkru síðan verið tilbúinn með svarið.

Ástæða fyrirspurnarinnar er sú að við höfum horft upp á tilboð í vegagerð og byggingariðnaði sem hafa að margra mati keyrt úr hófi fram þar sem þau eru svo lág að rétt rúmast til efniskaupanna. Við höfum séð tilboð sem eru undir 60% af kostnaðaráætlun. Ég og margir aðrir, og þá sérstaklega aðilar í verktakaiðnaðinum, höfum velt því fyrir okkur hvernig á því standi að fyrirtæki, jafnvel fyrirtæki sem voru í eign m.a. ríkisbanka á þeim tíma, hafa staðið að mjög lágum tilboðum. Hvert mun sú þróun leiða okkur ef aðilar á verktakamarkaðnum undirbjóða samkeppnisaðila síendurtekið, jafnvel heiðarleg fyrirtæki sem bjóða með eðlilegum hætti í verk, jafnvel 80–90% af kostnaðaráætlun? Eins og áður sagði höfum við séð mörg tilboð sem eru jafnvel undir 60% af kostnaðaráætlun.

Ég held að þetta leiði okkur í þær ógöngur ef fram heldur sem horfir, að bærilega vel stæð og vel rekin fyrirtæki á þessum mörkuðum muni einfaldlega keyra í þrot. Menn af Héraði á Austurlandi hafa mikið haft samband við mig og lýst áhyggjum sínum af þessum undirboðum og kannski ekki síst vegna þess að menn fá ekki verkin. Þegar þeir leita til viðskiptabanka síns um fjármögnun og geta ekki sýnt fram á að þeir hafi verk út árið, fá þeir ekki fyrirgreiðslu í viðkomandi bankastofnun.

Að mínu viti hefur alvarlegt ástand ríkt á þessum markaði. Ég vil beina því til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann hafi skoðað það sérstaklega að óeðlileg undirboð eigi sér stað í vegagerð og byggingariðnaði. Það er mjög mikilvægt núna, þegar við erum að horfa til framtíðar og viljum byggja nýtt samfélag á öðrum grunni en var, að þessi mál séu í lagi, þ.e. að menn bjóði í verk á eðlilegum forsendum. Ég hef heyrt um allt of mörg dæmi frá aðilum í þessum bransa um að mikil undirboð séu í gangi og þeir aðilar sem bjóða í verk með eðlilegum hætti (Forseti hringir.) eiga einfaldlega ekki möguleika á að fá þau vegna þessara undirboða.