138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

Maastricht-skilyrði og upptaka evru.

464. mál
[13:02]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Mér sem efnahags- og viðskiptaráðherra hefur borist fyrirspurn í allmörgum liðum á þskj. 804, sem er 464. mál þingsins, frá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Mun ég leitast við að svara öllum spurningunum.

Efnahagslegur stöðugleiki sem næst þegar ríki uppfyllir Maastricht-skilyrðin svokölluðu er meginmarkmið efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, enda er stöðugleiki í efnahagsmálum forsenda sjálfbærs hagvaxtar. Þrátt fyrir að verðbólga sé enn nokkuð há á Íslandi hefur hún lækkað allhratt undanfarna mánuði. Búast má við að verðbólgan lækki hratt næstu mánuði, að því gefnu að gengi krónunnar haldist stöðugt eða haldi áfram að fara upp á við eins og það hefur gert undanfarnar vikur. Samkvæmt flestum spám gæti verðbólga verið undir lok árs 2011 nærri 3% og þá innan við 1,5 prósentustig frá óopinberu verðbólgumarkmiði Seðlabanka Evrópu. Hins vegar er verðbólguþróun í nokkrum aðildarríkjum ESB mikilli óvissu háð, sem gerir nákvæmari tímasetningu óvissa. Reynsla annarra ríkja sem tekið hafa upp evru sýnir svo ekki verður um villst að langtímavextir aðlagast vöxtum evrusvæðisins hratt þegar ljóst er að viðkomandi ríki munu ganga í myntbandalagið. Engin ástæða er til þess að halda að reynsla Íslands verði önnur. Árangur á sviði efnahagsstefnunnar, ákvörðun um inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru munu ráða mestu um hvenær Ísland mun uppfylla vaxtaákvæði Maastricht-skilyrðanna.

Varðandi hallarekstur hins opinbera, hefur ríkisstjórnin birt áætlun í ríkisfjármálum til millilangs tíma. Samkvæmt henni og skuldbindingum Íslands gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verður halli hins opinbera orðinn innan við 3% af landsframleiðslu þegar árið 2012. Hrun bankakerfisins hefur valdið mikilli skuldaaukningu ríkissjóðs með miklum útgjöldum vegna falls bankanna, endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands og hallarekstri á ríkissjóði. Af þessum sökum er gert ráð fyrir því að skuldir hins opinbera verði hæstar um 120% af landsframleiðslu 2010. Líkt og í mörgum ríkjum innan myntbandalagsins verður skuldastaða hins opinbera hér á landi nokkuð yfir skuldamarkmiðum Maastricht-skilyrðanna næstu árin vegna þessa. Hins vegar skiptir grundvallarmáli að skuldirnar munu fara minnkandi ef ríkisstjórnin og Alþingi halda sig innan áætlunar í ríkisfjármálum og verða nærri 85% af landsframleiðslu árið 2014, sem verður nokkuð nálægt eða jafnvel undir meðaltali í Vestur-Evrópu.

Nauðsynlegt er að lækka skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu. Það næst bæði með ábyrgri stjórn fjármála hins opinbera og öflugum hagvexti. Það er ljóst að grundvallarverkefni stjórnvalda næstu mánuði verður að tryggja að við höldum áfram á þeirri braut. Við verðum að sýna að við erum þess megnug að taka á fjárhagsvanda hins opinbera og byggja upp traust til framtíðar.

Við þetta má bæta að þótt viðmiðin miðist við vergar skuldir eða brúttóskuldir er staða Íslands enn betri í erlendum samanburði ef eingöngu er horft til hreinna skulda. Það er fyrirsjáanlegt að árið 2014 verði staða Íslands líklega betri en landa Evrópusambandsins. Raunar verður hún betri en í öðrum löndum sem við horfum oft til, t.d. í Bandaríkjunum svo ekki sé nú minnst á Japan sem á við mestan vanda allra landa að stríða núna. Þá er ekki horft til þess að skuldbindingar utan efnahagsreiknings eru litlar hérlendis. Í mörgum löndum eru þær verulega íþyngjandi og raunar má halda því fram með góðum rökum að íslenska ríkið eigi eignir utan efnahagsreiknings.

Ljóst er að hugsanleg innganga Íslands í Evrópusambandið og þátttaka í gengissamstarfi Evrópu mun ráðast af fjölmörgum þáttum sem þær efnahagsspár sem ríkisstjórnin styðst við ná ekki til. Efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar er ætlað að koma á stöðugleika og sjálfbærum hagvexti til frambúðar. Ísland verður reiðubúið til þess að taka þátt í gengissamstarfi Evrópu þegar pólitískt tækifæri gefst. Ef efnahagsstefnunni verður framfylgt af framsýni og krafti mun Ísland líklega aðeins vera þátttakandi í svokölluðu ERM2-samstarfi í tvö ár, áður en hægt verður að taka upp evru.