138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

Maastricht-skilyrði og upptaka evru.

464. mál
[13:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra.

Ég verð að segja það að mér þykir ráðherrann vera bjartsýnn fram úr hófi. Hann notar sama bragðið og ríkisstjórnin og ber okkur saman við hinn versta kost, samanber það að staða Íslands árið 2014 verði langtum betri en staða landa Evrópusambandsins. Hann rekur þó sérstaklega að skuldir utan efnahagsreiknings ríkisins séu lágar. Ég minni á að ríkisstjórnin ætlar að fara þá leið að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Komið hefur fram tillaga um að byggja vegakerfið upp sem er akkúrat krafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að hafa það utan efnahagsreikninga ríkisins.

Mig langar til að varpa fram spurningu til ráðherrans, úr því að ég er komin hér upp: Telur hann að ESB slaki á Maastricht-skilyrðunum vegna þess hve bágborið ástandið í Evrópu er? Þar riða a.m.k. fimm þjóðir á barmi þjóðargjaldþrots, (Forseti hringir.) gætu Íslendingar komist inn á (Forseti hringir.) evrusvæðið með þeim skilyrðum?