138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

Maastricht-skilyrði og upptaka evru.

464. mál
[13:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka fyrir þessa umræðu og þakka hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í hana fyrir framlag þeirra.

Mig langar að nota seinni ræðu mína til þess að segja að að sjálfsögðu eru Maastricht-skilyrðin ekkert annað en heilbrigðisvottorð á að efnahagslíf þjóðarinnar sé gott. Ég tel alveg rétt að vinna að því að uppfylla skilyrðin um heilbrigt efnahagsumhverfi.

Vegna þeirrar þungu áherslu á að evran muni leysa vandamál okkar er ljóst að við verðum að fá skýr svör frá ráðamönnum ríkisstjórnarinnar um hvenær það verður.

Ég skil hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þannig að hann telji það verða árið 2014 ef við uppfyllum öll skilyrði. Mig langar enn fremur að varpa þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort það sé rétt skilið. Ef ekki árið 2014, hvenær þá? Í umræðunni, sem hefur verið mjög villandi, er hægt að draga menn inn á rangar brautir með falsvonum, eins og þeirri að ef við göngum í Evrópusambandið náum við fljótlega að taka upp evruna og þar með muni hagur efnahagslífsins vænkast. Ég tel að þetta séu rangar fullyrðingar. Ég vil að umræðan um aðild að Evrópusambandinu fari fram á málefnalegan hátt og tel að þessi fyrirspurn sé innlegg í þá umræðu. Ég er algjörlega sannfærð um að ef menn hlusta á málefnin, hlusta á hin efnislegu rök í málinu, muni þjóðin sannfærast um það eins og ég að hag okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan, líkt og kannanir hafa sýnt. Sérstaklega vil ég vísa í nýja könnun sem birtist á (Forseti hringir.) Andríki í dag. Þar vill meiri hluti íslensku þjóðarinnar að umsóknin verði dregin til baka.