138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

gjald fyrir ónýttar yfirdráttarheimildir.

471. mál
[13:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Líkt er með þessa fyrirspurn og fyrri fyrirspurn mína til hæstv. ráðherra, hún var lögð fram þann 16. mars sl. og ég spyr hæstv. ráðherra tveggja spurninga: Í fyrsta lagi hvort hæstv. ráðherra telji að viðskiptabönkum eigi að vera heimilt að taka sérstakt gjald fyrir ónýttar yfirdráttarheimildir. Í öðru lagi hvort ráðherrann hyggist beita sér fyrir því að fjármálastofnunum verði gert óheimilt að innheimta slíkt gjald.

Kveikjan að fyrirspurninni var frétt þar sem rætt var við Jóhannes Gunnarsson, formann Neytendasamtakanna, þar sem hann vísað til þess að fjármálastofnanir væru á þeim tímapunkti að innheimta heimildargjald þrátt fyrir að viðkomandi viðskiptavinur nýtti sér ekki heimildina.

Ég sá það í frétt frá 22. mars, þ.e. sex dögum eftir að fyrirspurnin var lögð fram, að Íslandsbanki hafði ákveðið að fella þetta heimildargjald niður þannig að ég er a.m.k. með upplýsingar um það að einn af stóru bönkunum þremur hafi ákveðið að fella þetta niður. Ég tel að hér sé um ákveðið réttlætismál að ræða. Íslenskur almenningur borgar í dag himinháa vexti vegna yfirdráttarlána, eina hæstu vexti í heimi. Látum það nú vera í þessari umræðu en þegar viðkomandi fjölskyldur, eða íslensk heimili, nýta sér ekki yfirdráttarheimildir hafa þær eftir sem áður þurft að greiða sérstakt heimildargjald.

Ég hlýt því að velta því fyrir mér, og spyr hæstv. ráðherra að því, hvort honum finnist þetta eðlilegt og hvort við hér á vettvangi þingsins, eða hæstv. ráðherra í einhverjum reglugerðum, getum ekki komið í veg fyrir að þessi gjaldtaka sé viðhöfð með þessum hætti.

Fólk borgar allt of mikinn fjármagnskostnað. Fólk borgar allt of mikil gjöld vegna viðskipta við viðskiptabanka sína eða aðra aðila í þessu samfélagi. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki reiðubúinn að slást í lið með heimilunum í landinu, sem í dag borga gríðarlega háar upphæðir í fjármagnskostnað og alls konar gjöld, og koma í veg fyrir að viðskiptabankar innheimti heimildargjald, jafnvel þótt viðskiptavinurinn skuldi viðkomandi banka ekki krónu.