138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn.

596. mál
[13:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ber upp fyrirspurn sem ég kom með í þingið 26. apríl og varðar hreindýraveiðar. Hreindýraveiðar eru umfangsmikil starfsemi á Austfjörðum og það eru hvorki meira né minna en 1.300 leyfi sem veitt eru til hreindýraveiða á hverju ári. Þó að þetta mál sé ekki eitt af þeim stóru málum sem blasa við okkur í þinginu er það samt þannig að það snertir bæði öryggi þeirra sem taka þátt í hreindýraveiðum og þeirra sem eru á þessu svæði, sem er ansi víðfeðmt, og sömuleiðis snertir það ferðaþjónustuna sem er mikið hagsmunamál í þessum landshluta. Hreindýraveiðar hafa gengið vel, leyfi ég mér að fullyrða, og hafa farið fram nokkurn veginn án slysa sem betur fer. Hins vegar má bæta mjög margt í umhverfinu varðandi hreindýraveiðar og það hefur vantað mikið upp á frumkvæði frá stjórnvöldum hvað þetta varðar. Væri æskilegt að heyra sjónarmið hæstv. umhverfisráðherra hvað þessa hluti varðar og sömuleiðis almennt en það er mjög langt síðan reglugerð um hreindýraveiðar var endurskoðuð.

Í stuttu máli er það tveggja mánaða tímabil sem hreindýraveiðarnar standa yfir en langmesta álagið er hins vegar á stuttum tíma, 25 dögum. Ekki hefur verið haldið námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn síðan árið 2001. Með öðrum orðum, það hefur ekki fjölgað í hópi hreindýraleiðsögumanna frá þeim tíma, sem er að verða áratugur. Um 80 leiðsögumenn eru starfandi núna, þeir eru á ýmsum aldri og eiga það auðvitað sameiginlegt með öðrum landsmönnum að þeir yngjast ekki. Það er því ekki þannig að þeir sem eru búnir að vera í þessu lengi fari að bæta meiru á sig. Dæmi eru um að þeir sem eru virkastir í þessu og halda þessu mest uppi taki frá 10–50 veiðimenn á tímabilinu og á ákveðnu tímabili eða frá ágústlokum og fram í miðjan september er álag mikið, sérstaklega á fjölmennasta svæðinu, sem er svæði tvö. Mjög margir veiðimenn hafa spurt mig að þessu og ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna hafa ekki verið haldin námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn síðan árið 2001 og hvenær stendur til að halda námskeið næst?