138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn.

596. mál
[13:30]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrirspurnina um námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn. Það er skemmst frá því að segja að Umhverfisstofnun ber ábyrgð á því að halda námskeið fyrir leiðsögumenn fyrir hreindýraveiðimenn en stofnunin fylgist með og hefur eftirlit með framkvæmd hreindýraveiða eins og kunnugt er.

Undanfarin ár hefur stofnunin ekki talið þörf á því að haldin yrðu námskeið fyrir leiðsögumenn við hreindýraveiðar og því hafa námskeið ekki verið haldin og fer ég yfir rök stofnunarinnar til að svara fyrirspurn hv. þingmanns.

Umhverfisstofnun metur í lok hvers veiðitímabils hreindýra hvernig til tókst og skoðar hvort ástæða sé til að breyta einhverju fyrir næsta tímabil. Það er gert á hverju ári. Almennt hafa hreindýraveiðar gengið vel undanfarin ár, eins og kom fram í máli þingmannsins, og mestur hluti kvótans náðst á hverju ári. Ýmsar ástæður geta legið að baki þegar hreindýrakvóti hefur ekki náðst, t.d. að veiðimenn hafa ætlað seint til veiða en svo ekki komist þegar á reynir. Sumir veiðimenn sem ekki hafa mætt til veiða hafa ekki skilað inn veiðileyfi sínu til að hægt væri að úthluta því til annarra aðila á biðlista. Einnig geta skapast vandamál þegar sumir landeigendur hafa lokað löndum sínum fyrir hreindýraveiðum eins og gerst hefur á svæði níu sem er Hornafjörður eða það sem áður var Mýrahreppur og Borgarhafnarhreppur eða Suðursveit, og stundum hefur staðið tæpt að kvóti hafi náðst af þeim sökum.

Umhverfisstofnun hefur ekki dæmi um að veiðimaður hafi ekki komist til veiða vegna skorts á leiðsögumönnum og því hefur stofnunin metið það svo að ekki hafi verið brýn nauðsyn á námskeiðum fyrir leiðsögumenn. Það var þó til skoðunar hjá Umhverfisstofnun að halda námskeið fyrir leiðsögumenn í vor, vorið 2010, en vegna yfirstandandi vinnu að breytingum á lögum nr. 64/1994, um hreindýraveiðar, var ákveðið að bíða með námskeiðið þar til eftir að þær breytingar hafa gengið í gegn þar sem nauðsynin þótti ekki brýn.

Ég vona að þessi yfirferð svari spurningu hv. þingmanns.