138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

lækkun launa í heilbrigðiskerfinu.

606. mál
[13:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Sú stefna hefur verið mótuð af hæstv. ríkisstjórn að laun í ríkiskerfinu eigi ekki að vera hærri en sem svarar heildarlaunum hæstv forsætisráðherra. Við höfum breytt lögum á Alþingi m.a. til að reyna að ná fram þessu stefnumiði og það er ekkert óeðlilegt að þessi mál séu rædd með einhverjum hætti í sölum Alþingis.

Nú liggja fyrir skjalfestar upplýsingar, m.a. í þingskjölum í þinginu, um það hverjir það eru og hvaða starfsstéttir það eru sem einkanlega fá laun sem eru hærri en sem svarar heildarlaunum forsætisráðherra. Það birtist í svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Skúla Helgasonar um hálaunastörf á vegum ríkisins. Í því svari kemur fram að 402 einstaklingar hafi hærri heildarlaun en forsætisráðherra og það sem vekur athygli við lestur á þeirri samantekt er að í þessum hópi 402 einstaklinga eru u.þ.b. 90% innan heilbrigðisstéttanna. Innan Læknafélags Íslands 301 einstaklingur, innan Skurðlæknafélags Íslands 34, innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 13 og í hópi þeirra stéttarfélaga þar sem fimm eða færri einstaklingar hafa þessi heildarlaun er m.a. Ljósmæðrafélag Íslands, svo dæmi sé tekið. Mér finnst ástæða til að setja þetta í samhengi við það sem ég er að spyrjast fyrir um.

Hæstv. heilbrigðisráðherra greindi frá því í tengslum við ársfund Sjúkrahússins á Akureyri fyrr í vetur að það væri ætlun hennar. að ná fram sparnaði í heilbrigðiskerfinu með því að lækka laun þeirra sem hefðu hæst laun í heilbrigðiskerfinu. Þá er auðvitað ljóst að þar með er hæstv. ráðherra að beina athygli sinni að þeim starfsstéttum sem ég vakti máls á.

Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvaða fyrirætlanir séu um að lækka laun lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks og hvernig hæstv. ráðherra hyggist ná fram ásetningi sínum um að lækka þau laun. Ég spyr líka hvort hæstv. ráðherra hafi látið leggja mat á það hvort slíkt hafi áhrif á möguleika á að manna læknastöður og stöður annars heilbrigðisstarfsfólks.

Ástæðan fyrir því að ég spyr þessarar spurningar er einfaldlega sú að við vitum að læknar eru mjög hreyfanlegir í þeim skilningi að þeir geta sótt sér vinnu annars staðar. Það eru þegar allmörg dæmi um að læknar, t.d. á landsbyggðinni og ég hygg örugglega líka á stofnunum á höfuðborgarsvæðinu, séu farnir að leita sér að vinnu og hafi þegar hafið störf erlendis. Þess vegna hlýtur að koma upp sú spurning hvort ákvörðun eða vilji hæstv. ráðherra kunni að hafa þau áhrif að það verði erfiðara en ella að manna læknastöður. Mér er kunnugt um að þrátt fyrir hremmingarnar og harðindin í landinu er erfitt á mörgum sviðum að manna stöður heilbrigðisstarfsmanna og því vaknar sú spurning hvort ákvörðun af þeim toga sem hæstv. ráðherra kynnti gæti ekki haft þau áhrif að þetta yrði enn erfiðara og að við stæðum uppi án lækna og heilbrigðisstarfsfólks í ýmsum héruðum.