138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

áhrif skattahækkana á eldsneytisverð.

636. mál
[13:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Í þeim miklu raunum sem ríkissjóður hefur ratað í upp á síðkastið hafa menn reynt ýmislegt til að rétta af þann mikla halla sem orðið hefur á rekstri ríkisins. Sú tekjuminnkun sem varð, og hefur fylgt sérstaklega fjárlögum 2009 og 2010, sýnir að menn urðu að grípa til margs konar aðgerða bæði á útgjalda- og tekjuhlið og í sjálfu sér ætla ég ekki að hefja mikla umræðu um það mál.

Eitt af því sem gert hefur verið er að hækka verulega skatta á bensín og dísilolíu og það hefur verið gert með ýmsum hætti. Að hluta til, og að mestu leyti, er þetta viðleitni til að auka tekjur ríkisins og það er svo sem ekki nýtt af nálinni, við þekkjum það frá fyrri tíð. Að hluta til hefur þetta verið klætt í búning grænna skatta en hins vegar er augljóst að það er ekki meginmarkmiðið með þeim breytingum sem hafa orðið á skattheimtu og gjaldheimtu á eldsneyti frá ársbyrjun 2009. Skattar hafa verið hækkaðir, svo sem vörugjöld, flutningsjöfnunargjald er væntanlega svipað og hefur verið en það hefur verið lagt á nýtt gjald sem heitir kolefnisgjald, bensíngjaldið hefur verið hækkað og síðast en ekki síst hefur virðisaukaskattur almennt verið hækkaður og þar með hefur virðisaukaskattur á eldsneyti líka hækkað sem þessu nemur.

Bensín og dísilolía skipta miklu máli fyrir rekstur ýmissa fyrirtækja. Tökum útgerð sem dæmi, landbúnaðinn og auðvitað fjölmargar aðrar atvinnugreinar, verktakastarfsemi og ýmiss konar þjónustustarfsemi, leigubíla o.fl. Það er ljóst að hækkun á gjöldum á þessum eldsneytisgjöfum hefur heilmikil áhrif á rekstrarafkomu ýmissa fyrirtækja, stórra sem smárra, en þetta hefur líka mikil áhrif á hag heimilanna. Heimilin eru mjög háð rekstri einkabílsins. Margir hafa gripið til þess að reyna að losa sig við bensínhákana og olíuhákana og nota minni bíla en það er hins vegar eins og allir vita hægara um að tala en í að komast að selja og kaupa bíla við þær aðstæður sem ríkja núna á markaðnum.

Það gefur augaleið að hækkun á eldsneytisverði hefur bein áhrif á hag heimilanna og það er ástæða til að reyna að átta sig dálítið á því. Þess vegna hef ég spurt hæstv. fjármálaráðherra tveggja spurninga.

Sú fyrri er þessi: Hversu mikill hluti af hækkun eldsneytisverðs frá ársbyrjun 2009 á rætur sínar að rekja til aukinna skatta og gjalda á eldsneyti á þessu tímabili?

Hin spurningin er svona: Hvað er áætlað að verð á bensíni og dísilolíu væri nú án þessara breytinga á skattheimtu og gjaldtöku?