138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

áhrif skattahækkana á eldsneytisverð.

636. mál
[14:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt og skylt að glíma við að svara spurningum hv. þingmanns eftir bestu getu. Rétt er að hafa í huga að tekjuöflunaraðgerðir sem þessu tengjast hófust með því að fyrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hækkaði bensín og olíugjöld í desember 2008. Síðan var upphæð þessara gjalda breytt í tvígang vorið 2009 og aftur um síðustu áramót. Þá var svonefnt kolefnisgjald tekið upp sem hluti þeirrar hækkunar á allt jarðefnaeldsneyti. Vorið 2009 var útfærslan þannig að olíugjaldi var hlíft við hækkuninni að hluta og gripið til mótvægisaðgerða varðandi flutningskostnað gegnum þungaskatt og það hefur skilað þeim árangri að verð á dísilolíu er nú lægra en á bensíni eins og alltaf var ætlunin. Um leið hafa menn sætt færis og gert nokkrar lagfæringar á kerfinu, sem ég hygg að séu til bóta.

Hagstofan skráir eingöngu verð á bensíni en ekki á dísilolíu. Hún birtir upplýsingarnar á vefsíðu sinni, líklega fyrir fjórar tímasetningar á ári hverju, og nýjustu upplýsingar eru frá því í maí. Af þeim sökum sneri ráðuneytið sér til FÍB sem hefur góðfúslega veitt aðgang að reglubundinni vöktun á útsöluverði bæði bensíns og dísilolíu en þau samtök reikna út meðalverð fyrir hvern mánuð.

Í desember 2008 kostaði bensín 141,44 kr. lítrinn í sjálfsafgreiðslu, væntanlega á mönnuðum stöðvum. Skattur nam þá 73,59 kr. og var slétt 52% af útsöluverðinu. Nú í júní kostar bensín í sjálfsafgreiðslu, væntanlega sömuleiðis á mönnuðum stöðvum, 202,71 kr. og það verð er hér haft til viðmiðunar þó að það breytist nánast á hverjum degi. Reyndar er mikið verðbil í útsöluverði bensíns, eins og við sjáum þessa dagana, allt frá 190 kr. lítrinn á ódýrustu ómönnuðum stöðvum og upp í líklega 206 kr. á mönnuðum stöðvum með fullri þjónustu. Ef við notum töluna 202,71 kr. er skatturinn þar af 104,61 kr. eða 51,4% af útsöluverði, sem sagt ívið lægra hlutfall en í desember 2008. Bensínverðið hefur því hækkað um 61,27 kr. en skattar um 28,12 kr. og hlutur skattahækkunarinnar er 46% af þessari verðhækkun.

Í desember 2008 kostaði dísilolía 167,28 kr. og þar af voru skattar 77,77 kr. eða 46,5% af útsöluverði. Nú í júní kostar dísilolían á sama mælikvarða 199,71 kr. Þar af eru skattar 97,03 kr. eða 48,6% af útsöluverði. Hækkunin nemur 32,43 kr. en skattar hafa hækkað um 19,26 kr. og eru um 59% af hækkuninni.

Það er erfitt að segja til um hver verðþróunin hefði orðið nákvæmlega, þ.e. hvort hún hefði orðið eitthvað að ráði önnur ef þessi gjöld hefðu ekki verið hækkuð. Verðlag á eldsneyti er frjálst og verð breytist mjög mikið vegna breytinga á heimsmarkaðsverði, gengi og álagningu auk skattkerfisbreytinganna sem hér hefur verið gerð grein fyrir.

Fyrirspyrjanda til upplýsingar má geta þess að hlutfall skatta af útsöluverði bensíns var hærra en það er nú allar götur fram til desember 2008 þegar heimsmarkaðsverð hafði hækkað svo mikið að skatthlutfallið féll niður fyrir 50% af útsöluverði. Þegar þeirri hækkun linnti hækkaði skatthlutfallið á ný og hefur núna verið um 50% af útsöluverði. Skatthlutfall miðað við útsöluverð er því síst hærra og heldur lægra en það hefur verið að langtímameðaltali. Hvað dísilolíuna varðar er að mestu leyti sömu sögu að segja allt frá því að olíugjaldið var tekið upp. Skattar voru yfir 50% af verði allt fram í desember 2008 en frá því í apríl 2009 hafa þeir verið innan við 50% af útsöluverði dísilolíunnar. Þetta hygg ég að svari því að hlutföllin þarna á milli hafa haldist nokkuð og eru í raun ívið hagstæðari notendum ef svo má að orði komast, þ.e. skatturinn er heldur lægra hlutfall en hann hefur lengst af verið að meðaltali undanfarin ár, að frátöldu stuttu tímabili þegar (Forseti hringir.) verðhækkanir komu að fullu inn eftir gengisbreytingar.