138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

starfsmenn dómstóla.

648. mál
[14:13]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Hv. fyrirspyrjandi hefur reifað í öllum aðalatriðum það fyrirkomulag sem gildir um starfsmenn dómstólanna en ég ætla að fá að fara aðeins yfir það líka því að á því byggist svar mitt.

Það þarf varla að minna á að dómsvaldið er þriðja grein ríkisvaldsins og þróun löggjafar síðustu ár hefur verið í þá átt að efla sjálfstæði dómstólanna gagnvart framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu. Við setningu laga um dómstóla, nr. 15/1998, var þessari stefnu fylgt og leitast við að tryggja að dómstólarnir væru í sem ríkustum mæli sjálfráðir um stjórn innri málefna sinna.

Dómstjórarnir gegna mikilvægu og afgerandi hlutverki í starfsmannamálum dómstólanna. Auk þess að gegna dómstörfum hefur dómstjóri með höndum stjórn héraðsdómstóls og ber ábyrgð á starfsemi hans. Í því felst að dómstjóri skiptir verkum milli dómara og annarra starfsmanna, þar á meðal að ráða aðra starfsmenn dómstóls en héraðsdómara og slíta ráðningu þeirra. Honum ber að fylgjast með störfum dómara og annarra starfsmanna og gæta aga gagnvart þeim að því leyti sem ekki kemur í hlut nefndar um dómarastörf.

Starfsmenn dómstóla njóta líkt og aðrir starfsmenn hins opinbera verndar starfsmannalaganna, og þar á ég við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, en þó gilda í þessu tilliti ákveðnar takmarkanir sem ráðast af sjálfstæði dómsvaldsins. Þannig hefur ráðuneytið almennt litið svo á að ekki sé hægt að kæra eða kvarta undan ákvörðun dómstjóra til ráðuneytisins telji starfsmenn dómstóla brotið á sér í starfi. Þessi túlkun byggir á ákvæðum laga um dómstóla að því er varðar sjálfstæði dómstóla og hlutverk dómstjóra. Starfsmenn dómstóla sem telja á sér brotið í starfi eiga að geta leitað til síns yfirmanns með umkvörtunarefni gagnvart öðrum starfsmönnum dómstólsins sem svo tekur málið til meðferðar. Dómstólaráð hefur eftirlit með störfum dómstjóra, samanber 4. mgr. 16. gr. laga um dómstóla. Dómstólaráð hefur hins vegar litið svo á að því sé ekki heimilt að endurskoða störf dómstjórans og í því felist að ráðið geti ekki fjallað um upphaf eða endi ráðningar. Eina leið starfsmanns sé því að höfða dómsmál til að ná fram rétti sínum eins og hv. fyrirspyrjandi kom réttilega inn á áðan.

Ef dómstjóri hefur hins vegar brotið af sér í starfi, svo sem gagnvart öðrum starfsmanni, getur dómstólaráð tekið slík mál til meðferðar. Dómstólaráð getur síðan veitt dómstjóra skriflega áminningu telji það hann hafa brotið af sér í starfi og ef sakir eru miklar eða brot ítrekað getur dómstólaráð lagt til í rökstuddu erindi að dómstjóra verði veitt lausn frá starfinu. Rétt er að taka fram að almennt er gengið út frá því að beina skuli kvörtunum um stjórnsýslu héraðsdómstólanna til dómstólaráðs.

Hvað varðar umboðsmann Alþingis segir í 2. mgr. 2. gr. laga um umboðsmann Alþingis, nr. 85/1997, að umboðsmaður sé í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi, og í 3. gr. laganna er fjallað um starfssvið hans eins og komið var inn á áðan. Þannig ákveður umboðsmaður Alþingis sjálfur hvort hann taki málið til meðferðar en umboðsmaður hefur litið svo á að uppi sé réttaróvissa um hvort ákvarðanir í almennri stjórnsýslu dómstóla falli undir valdsvið hans. Því er staðan sú að ef umboðsmaður Alþingis telur að hann geti ekki fjallað um þessi mál virðast starfsmenn dómstóla njóta heldur lakari réttinda en aðrir ríkisstarfsmenn þegar kemur að endurskoðun og ákvörðunum er varða réttindi þeirra og skyldur sem opinberir starfsmenn. Starfsmenn ráðuneyta eru sama marki brenndir þegar kemur að því að njóta ekki kæruréttar til æðra stjórnsýslustigs en þeir geta þó í öllu falli leitað til umboðsmanns Alþingis áður en til dómsmáls kemur. Því tel ég fullt tilefni til að taka þetta brýna málefni upp við dómsvaldið. Reyndar gefst Alþingi tækifæri til að gera bragarbót á við afgreiðslu frumvarps til laga um breyting á lögum um dómstóla sem nú er til meðferðar í allsherjarnefnd. Þar gefst færi á að koma að lagaákvæðum sem varða þessi mál en þá kemur væntanlega líka til greina einfaldlega að breyta lögum um umboðsmann Alþingis þannig að valdsvið hans verði rýmkað til að hann geti fjallað um stjórnsýsluákvarðanir innan dómstólanna. Þannig getur Alþingi skorið úr um þessi atriði með lagasetningu en ég held að það verði að gera það að fengnu samráði við dómsvaldið og líka að teknu tilliti til þess að dómsvaldið er sjálfstæð grein ríkisvaldsins.