138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

starfsmenn dómstóla.

648. mál
[14:20]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Jú, ég get tekið undir að það sé fullt tilefni til þess að Alþingi hugi að því að endurskoða eða útvíkka valdsvið umboðsmanns í þessu tilliti. Ég vil þó nefna að það geta rök verið gegn því að umboðsmaður Alþingis taki almenna stjórnsýslu dómstóla til endurskoðunar, þ.e. ákvarðanir sem teknar eru þar. Þá er ég að hugsa um sjálfstæði dómsvaldsins. Ég útiloka ekki neitt, ég viðra bara önnur sjónarmið. Þróunin virðist vera í þá átt að valdsvið umboðsmanns Alþingis sé frekar rýmra en þrengra. Það má líka færa rök fyrir því að það sé gott og blessað. Þannig hefur umboðsmaður Alþingis tekið til athugunar ákvarðanir sem teknar eru innan ákæruvaldsins sem ráðuneyti hefur t.d. ekki talið sér heimilt að taka til umfjöllunar en umboðsmaður telur að svo sé. Þarna held ég að sé ákveðin þróun á ferðinni sem við verðum öll að gefa gaum.

Hvað varðar starfsmannamál dómstóla almennt tel ég mjög til bóta fyrir starfsmenn dómstólanna ef þeir geta borið fram kæru sína beint innan dómkerfisins, að það sé einhver kærunefnd eða einhvers konar verkferlar sem taka á málinu innan dómkerfisins sjálfs, að ekki þurfi að fara til umboðsmanns með það.

En eins og ég segi, ég held að þetta sé allt gott og blessað. Ef Alþingi ákveður að víkka út valdsvið umboðsmannsins þá held ég að það hljóti að koma vel til greina.