138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

ættleiðingar.

638. mál
[14:25]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina, hún gefur mér kærkomið tækifæri til þess að fara yfir þetta álitaefni sem hefur verið á borðum ráðuneytisins um nokkra hríð. Ég ætla að rifja það upp hér í byrjun að ættleiðingarmálefni fara samkvæmt lögum um ættleiðingar og alþjóðlegum samningum um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa eftir samningi sem gerður var í Haag, Haag-samningnum svonefnda.

Ákvæði Haag-samningsins eiga við þegar barn er ættleitt frá heimalandi sínu, sem nefnt er upprunaríki, til annars lands, svokallaðs móttökuríkis. Samningnum er ætlað að tryggja að ættleiðing milli landa fari fram með hagsmuni barnsins í fyrirrúmi og þannig að grundvallarréttindi þess séu virt og að komið sé í veg fyrir brottnám barna, sölu þeirra og verslun með þau, m.a. með því að reyna að koma millilandaættleiðingum í fastar skorður og með samvinnu yfirvalda.

Svonefnd miðstjórnvöld hér á landi, þ.e. dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, gegna lykilhlutverki við málsmeðferð sérstaks ættleiðingarmáls samkvæmt Haag-samningnum. Miðstjórnvöld beggja ríkja þurfa ávallt að samþykkja sérstaklega að tiltekin ættleiðing megi fara fram og vinna að því saman við meðferð sérhvers máls. Ríki geta falið almennum stjórnvöldum eða löggiltum ættleiðingarfélögum að vinna þau störf sem miðstjórnvöldum eru falin. Við höfum farið síðarnefndu leiðina hér á landi. Það er því ekki ráðuneytið sem annast þá milligöngu sem Haag-samningurinn kveður á um heldur löggilt ættleiðingarfélög. Þannig annast löggilt ættleiðingarfélög milligöngu um ættleiðingar og það er byggt á ákvæðum Haag-samningsins.

Þegar rætt er um ættleiðingu á eigin vegum, þ.e. ættleiðingu utan löggilts ættleiðingarfélags, er væntanlega vísað til þess að ríki geta samkvæmt Haag-samningnum ákveðið að stofnanir eða einstaklingar megi undir ákveðnum kringumstæðum vinna þau störf sem miðstjórnvöldum eru falin. Slíkt er þó ávallt háð eftirliti bærra stjórnvalda hvers ríkis. Okkar kerfi eins og það er núna uppbyggt gerir ekki ráð fyrir því fyrirkomulagi, þ.e. ættleiðingar fara hér í öllum meginatriðum í gegnum löggilt ættleiðingarfélög eins og fram hefur komið og ef víkja á frá því þarf skipulagsbreytingar til því að þá þyrfti ráðuneytið að taka að sér það eftirlit sem nú er á hendi ættleiðingarfélaganna. Fjölga þyrfti þeim starfsmönnum í ráðuneytinu sem ættu að sinna ættleiðingum, auk þess sem laga- eða reglugerðarbreytingar yrðu óhjákvæmilegar. Í þessu sambandi vil ég árétta að meðferð ættleiðingarmála hér á landi og umgjörð taka mið af ákvæðum Haag-samningsins og eru í samræmi við það sem þekkist annars staðar á Norðurlöndum. Ísland hefur hingað til ekki miðað framkvæmd sína við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem hv. fyrirspyrjandi nefnir, þ.e. Frakklandi, Spáni og Ítalíu.

Því er hins vegar ekki að leyna að framkvæmd íslenskra stjórnvalda hefur sætt gagnrýni frá ákveðnum hópum einstaklinga sem óska eftir því að fá að ættleiða barn. Hefur gagnrýnin lotið að því að okkar framkvæmd sé mun þrengri en gerist og gengur á hinum Norðurlöndum og að stjórnvöld hér séu ósveigjanleg og jafnvel ósanngjörn þegar kemur að því að heimila ættleiðingar barna frá öðrum löndum. Er mikill þrýstingur á stjórnvöld og einkum ráðuneytið um að rýmka reglurnar, sér í lagi vegna þess að nú um stundir gengur mjög erfiðlega og seint að ættleiða börn frá öðrum löndum sem áður stóðu okkur og umheiminum opin, eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda.

Virðulegi forseti. Vissulega eiga stjórnvöld að vera óhrædd við að endurskoða framkvæmd sína og taka ákvörðun um endurskoðun ef svo ber undir. Það verður að byggjast á ákveðnum forsendum og rökum og það verður að vera alveg klárt að það sé gert með hagsmuni barnanna í fyrirrúmi. Með það að leiðarljósi hef ég að vel ígrunduðu máli og eftir að hafa heyrt sjónarmið hinna löggiltu ættleiðingarfélaga hér á landi ákveðið að fara þess á leit við Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarrs um fjölskyldumálefni að gera úttekt á löggjöf um ættleiðingar og framkvæmd ættleiðingarmála hér á landi og skila mér sérstakri skýrslu þar að lútandi. Verður óskað eftir að sérstaklega verði fjallað um íslenskar reglur með hliðsjón af Haag-samningnum og framkvæmdinni á öðrum Norðurlöndum. Þar verður m.a. fjallað um ættleiðingar á eigin vegum og kosti þess og galla að taka það kerfi upp hér á landi.