138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

ættleiðingar.

638. mál
[14:32]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Spurt er hversu lengi gert er ráð fyrir að úttektin vari. Ég hafði hug á að stofna nefnd með aðkomu sérfræðinga og ættleiðingarfélaganna. Að íhuguðu máli komst ég að þeirri niðurstöðu að fræðileg úttekt gerð af sérfræðingum væri árangursríkust. Þá yrði líka farið til Danmerkur og viðað að sér upplýsingum um framkvæmdina. Ég hafði gert ráð fyrir tveimur mánuðum en það getur vel verið að það sé óraunhæft með tilliti til þess að nú er sumarið gengið í garð. Alla vega eru þröng tímamörk á þessu og ég geri mér grein fyrir því að tíminn er lykilatriði. Nú er hægt að fá framlengingu forsamþykkis þangað til umsækjandi er allt að 49 ára. Þarna förum við fram úr Norðurlöndunum hvað varðar aldurshámark. En auðvitað er það eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á hér áðan að við höfum ekki sambönd við mörg lönd, þ.e. menn hafa treyst of mikið á ættleiðingarsamband við Kína. Við reynum að styðja ættleiðingarfélögin til að mynda ný sambönd, Rússland er þar á meðal.

Ég vil ítreka að stjórnvöld eru undir miklum þrýstingi og ákvarðanataka í einu máli kallar á aðra eins í öllum málum. Þess vegna vil ég fá rök fyrir því hvort kerfisbreytingar séu nauðsynlegar og hvernig þær eiga að vera úr garði gerðar.