138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

bótagreiðslur til foreldra með sameiginlegt forræði.

655. mál
[14:37]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn.

Í upphafi er rétt að nefna að bæturnar sem hér um ræðir eru einkum tvenns konar, annars vegar greiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, og hins vegar umönnunargreiðslur samkvæmt 4. gr. laga um félagslega aðstoð sem greiðast framfærendum fatlaðra og langveikra barna sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi.

Greiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eru fjárhagsaðstoð til foreldra sem geta hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar barna sinna sem hafa greinst með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun. Greiðslur samkvæmt lögunum eru greiddar til foreldra sem fara með forsjá barns, hvort sem þeir fara einir með forsjána eða sameiginlega með hinu foreldrinu.

Einnig er gert ráð fyrir að forsjárlaust foreldri geti átt rétt til greiðslna. Það þarf samþykki þess foreldris sem fer með forsjá barnsins um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið á meðan greiðslur standa yfir og annist það.

Foreldrar geta skipt réttinum til greiðslna sín á milli fullnægi báðir foreldrar skilyrðum laganna. Foreldrar eiga þó ekki rétt á greiðslum fyrir sama tímabil. Því er ekki heimilt samkvæmt lögunum að greiða báðum fyrir sama tímabil, hvort sem foreldrar búa saman eða ekki. Undantekning frá þessu er þegar barn nýtur líknandi meðferðar, þá geta báðir foreldrar átt rétt á tímabundnum greiðslum. Framkvæmd að þessu leyti er í samræmi við lagaákvæðin.

Hvað varðar umönnunargreiðslur samkvæmt 4. gr. laga um félagslega aðstoð þá greiðast þær framfærendum fatlaðra og langveikra barna sem dveljast í heimahúsi eða sjúkrahúsi og taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Ekkert útilokar, hvorki í lögunum né reglugerð, að hægt sé að skipta þessum greiðslum á milli foreldra sem fara einir með forsjá og þeim sem fara sameiginlega með forsjá. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun hefur hún hingað til litið svo á að sá aðili sem barn hefur lögheimili hjá sé framfærandi barnsins. Þannig er álitið að framfærandi sé sá aðili sem barnið hefur fasta búsetu hjá og því séu umönnunargreiðslur einungis greiddar til þess foreldris. Þessi framkvæmd er í samræmi við afgreiðslu barnalífeyris sem almennt greiðist foreldrinu sem barnið er skráð með lögheimili hjá.

Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni hefur þetta fyrirkomulag reynst mjög vel í framkvæmd. Er þá horft til þess að meginmarkmið með greiðslunum sé að koma til móts við útlagðan kostnað vegna barnsins, svo sem lækna- og lyfjakostnað. Nægjanlegt er að annað foreldrið haldi utan um slíkan kostnað.

Til Tryggingastofnunar hefur aðeins einu sinni komið fram beiðni frá foreldri um að skipta umönnunargreiðslunum. Í því tilviki var beiðninni synjað á þeim forsendum að barnið átti lögheimili hjá hinu foreldrinu, sem auk þess hafði lagt út allan kostnað vegna meðferðar og umönnunar barnsins. Þessi ákvörðun var ekki kærð til úrskurðarnefndar Alþingis.

Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að breytingarlögum nr. 158/2007, á lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, kemur fram að efna eigi til endurskoðunar á umönnunargreiðslum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, samhliða greiðslukerfi samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og að þessar greiðslur verði skoðaðar m.a. með hliðsjón af reynslu af lögunum.

Undirbúningur slíkrar heildstæðrar endurskoðunar hefur þegar farið fram. Mikilvægt er að haga vinnunni þannig að hún verði gerð í samráði við hagsmunasamtök foreldra þeirra barna sem hér um ræðir. Hér þarf að skoða alla þætti málsins, eins og kostnað af umönnun og vinnutap foreldra, þannig að samræma megi öll þessi atriði í einni löggjöf sem skýri betur réttarstöðu foreldra. Hluti af þessari endurskoðun mun lúta að réttarstöðu foreldra sem hafa sameiginlega forsjá. Taka verður tillit til greiðslna útlagðs kostnaðar, vinnutaps og umönnunar barna sinna. Það hlýtur að vera aðaláhersluatriðið í þessu tilviki að sjá hvar kostnaður við vinnutap og umönnunin liggur.