138. löggjafarþing — 141. fundur,  14. júní 2010.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:15]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Á þessum vetri, eins og oft áður, hafa Íslendingar ekki farið varhluta af krafti náttúrunnar, fegurð hennar og eyðileggingarmætti. Jarðeldarnir á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli ollu bændum á Suðurlandi búsifjum og skakkaföllum í ferðaþjónustu og flugi en með samhentu átaki fólks, fyrirtækja og stjórnvalda hefur okkur tekist að snúa vörn í sókn þótt enn sé mikið verk óunnið. Það er skynsamleg afstaða í lífinu að vona það besta en búa sig jafnframt undir hið versta. Íslendingar búa að aldalangri reynslu af glímunni við náttúruöflin; eldgos, jarðskjálfta, ofanflóð. Við þeim eigum við viðbragðsáætlanir, allir þekkja hlutverk sitt og vinna eins og einn maður. Við kunnum að bregðast við hamförum af náttúrunnar völdum en þegar hamfarir af mannavöldum blasa við okkur skortir okkur sömu tæki. Af því þarf að læra.

Hrunið voru hamfarir af mannavöldum. Afleiðingin er mikil lífskjaraskerðing þorra fólks. Við erum í þröngri stöðu en höfum það hugfast að í henni eru líka fjölmörg tækifæri til breytinga og umbóta á íslensku samfélagi og stjórnkerfi. Kjósendur hafa tekið tækifærið til breytinga tveim höndum, fyrst í alþingiskosningunum í fyrra og svo með eftirminnilegum hætti í sveitarstjórnarkosningum 29. maí síðastliðinn. Ég vona að langþráð stjórnlagaþing kalli fram sömu viðbrögð um land allt.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var biðarinnar virði. Hún geymir hafsjó upplýsinga og leiðbeininga um það hvaða umbætur þarf að gera í löggjöf, í stjórnkerfinu, já og einnig í starfi fjölmiðla og annarra máttarstólpa þjóðfélagsins. Nýtum það góða gagn sem skýrslan er sem grunn að bættum stjórnarháttum og vinnubrögðum hér sem annars staðar. Á þessum vinnustað, Alþingi Íslendinga, er einnig verk að vinna. Það þarf að gera nauðsynlegar breytingar á þingskapalögum, breyta starfsháttum löggjafans til frambúðar og efla með breyttum vinnubrögðum traust fólks til þessarar stofnunar og virðingu Alþingis.

Nokkuð hefur verið rætt um það í þessum sal í vetur að fólk ætti ekki að eyða tíma sínum í smámál, eða eins og formaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það áðan, mál sem eru ekki áríðandi þegar önnur stærri bíða. En hér hafa engin smámál verið rædd og afgreidd heldur brýnar og tímabærar umbætur á stjórnkerfinu og á sviði mannréttinda. Ég nefni nokkur dæmi: Breytt fyrirkomulag við skipan hæstaréttar- og héraðsdómara, loksins. Stóreflingu embættis sérstaks saksóknara sem nú fær 80 starfsmenn í stað 30 áður. Fortakslaust bann við nektarsýningum sem vakið hefur heimsathygli á Íslandi. Ein hjúskaparlög fyrir alla. Einhverjir hefðu sagt hallelúja af minna tilefni.

Forseti. Þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur standa nú andspænis fjárlagagerð fyrir árið 2011. Brúa þarf allt að 40 milljarða kr. gat á fjárlögunum. Það kallar á mikinn niðurskurð hjá ríkinu en við þessar aðstæður dugar flatur niðurskurður skammt. Gera þarf róttækar breytingar á ríkiskerfinu og stofnunum þess. Byrjum á Stjórnarráðinu, hæstv. forseti. Skipulag og verkaskipting ráðuneytanna, sem sómdu sér vel árið 1969, eru fyrir löngu gengin sér til húðar og samræmast ekki kröfum samtímans. Sameining og fækkun ráðuneyta er forsenda þess að hagræða megi af einhverju viti. Einnig þarf að sameina ríkisstofnanir og brjóta niður múrana sem nú umlykja stofnanir og ráðuneyti og koma í veg fyrir eðlilegt samstarf. Huga þarf að nánara samstarfi á háskólastigi, bæta verkaskiptingu á milli háskólanna og taka fyrstu skrefin í átt til fækkunar háskóla hér á landi.

Við þessar aðstæður eru auðlinda- og umhverfisskattar eðlilegir, sanngjarnir og hagkvæmir fyrir samfélagið. Við jafnaðarmenn höfum einnig nefnt til sögunnar sérstakan tekjuskatt á fjármálastofnanir, svokallaðan bankaskatt. Á síðasta ári var hagnaður bankanna þriggja samtals 51 milljarður kr. og arðsemi eigin fjár allt að 30%. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs hagnaðist Landsbankinn um 90 milljónir á dag. Ágætu landsmenn. Þetta gerist á sama tíma og stjórnvöld hafa átt í mikilli baráttu við lánastofnanir til þess að fá þær til að koma betur til móts við skuldara. Nú er tækifæri til þess að hætta að einkavæða hagnaðinn og ríkisvæða tapið af rekstri banka hér á landi.

Að undanförnu hafa þingmenn úr öllum flokkum unnið mikið starf að því að efla og bæta úrræði fyrir heimilin í landinu. Afrakstur þeirrar samvinnu lítur nú dagsins ljós og verður án efa til þess að létta kjör þeirra sem glíma nú við skuldavanda eða stefna í þrot. Staðan er vissulega alvarleg. Um fjórðungur heimila á við mikinn fjárhagsvanda að stríða en við skulum ekki gleyma því að skuldsetning íslenskra heimila var orðin mjög mikil fyrir hrunið, en þá átti um fimmtungur heimila í sambærilegum erfiðleikum.

Hrun krónunnar, verðbólga, hækkun lána og atvinnumissir hefur gert stöðu margra nær óbærilega en úrræði stjórnvalda, bæði þau sem þegar hefur verið gripið til og þau sem nú eru í farvatninu, eiga að mæta verulegum hluta þess vanda. Hinar almennu aðgerðir, eins og greiðslujöfnun lána, hækkun vaxtabóta, og þá tel ég líka tillögur félags- og tryggingamálaráðherra um lækkun bílalána, svara þörfum stórs hluta skuldugra heimila, ekki síst þegar tekið er tillit til þess hversu þungt bílalán vega í heildarskuldum þeirra heimila sem eiga í mestum erfiðleikum.

Forseti. Mesta böl okkar nú um stundir er atvinnuleysi þúsunda Íslendinga, 8–9% af vinnuafli. Margir þeirra hafa verið án atvinnu missirum saman, í meira en ár. Það er án nokkurs vafa versti vandinn sem við er að etja í uppbyggingu efnahagslífs og samfélags í kjölfar bankahrunsins. En við skulum ekki gera okkur þá grillu að störf fyrir atvinnuleitendur sé öll að finna með því að skapa svipuð störf fyrir alla. Fjölbreytni atvinnulífs og starfa verður að styðja með öllum ráðum. Á meðan þúsundir eru án atvinnu leita fyrirtæki á sviði hugverka að starfsfólki með alls kyns menntun, tæknimenntun og vísindamenntun, starfsmenntun og háskólamenntun. Þeirri þörf verður að mæta með því að mennta fólk til starfa sem atvinnulífið kallar eftir. Þar er þörf á samstarfi stjórnvalda, skóla og atvinnulífs.

Góðir landsmenn. Sameiginleg eign landsmanna á náttúruauðlindum, hverju nafni sem þær nefnast, og afgjald af nýtingu þeirra er grundvöllur þess samfélagssáttmála sem íslensku samfélagi er nauðsynlegur eigi okkur að farnast vel á komandi árum og áratugum. Sameign þjóðarinnar á auðlindum okkar þarf að hljóta sinn sess í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Þessar klukkustundirnar rignir orðsendingum yfir þingmenn vegna vatnalaganna. Ég vil nota þetta tækifæri til að koma því skýrt á framfæri að staða vatnalaganna er ekki í neinni óvissu. Lögin frá 2006 munu ekki taka gildi, en iðnaðarráðherra leggur fram nýtt frumvarp til vatnalaga væntanlega eigi síðar en við upphaf haustþings.

Góðir landsmenn. Endurreisnarstarfinu er ekki lokið. Mér segir svo hugur að eftir um áratug getum við litið til baka og séð að á miðju ári 2010 stóðum við á tímamótum í endurreisnarstarfinu. Lykillinn að áframhaldandi árangri er að tekist sé á við vandann í rekstri ríkisins á fjárlögum næsta árs, að þriðja endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og stjórnvalda gangi eftir, að samningaviðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu hefjist á seinni hluta þessa árs, og fjárfestar, jafnt innlendir sem erlendir, treysti sér til þess að festa fé sitt í nýsköpun og annarri atvinnuuppbyggingu hér á landi. Gangi það eftir eru okkur flestir vegir færir.

Í upphafi máls míns sagði ég að landsmenn hefðu tekið tækifærið til breytinga tveim höndum í kosningum þessa árs og í fyrra. Það er afar gleðilegt en gleymum því ekki að lýðræði krefst stöðugrar þátttöku hvers einasta mannsbarns, ekki bara í kosningum heldur í almennri umræðu um landsmálin, um bæjarmálin, um réttindabaráttu okkar tíma heima og erlendis. Lýðræðið krefst þess af okkur að hvert og eitt okkar leggi sig fram um að byggja betra samfélag. Það er ekki einkamál stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka. — Lifið heil.