138. löggjafarþing — 141. fundur,  14. júní 2010.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Góðir Íslendingar. Að undanförnu hefur mikið gengið á í stjórnmálum á Íslandi og ekki hægt að segja annað en að íslenskir stjórnmálamenn hafi fengið ótvíræð skilaboð um að breytinga sé þörf. Menn hafa þess vegna rætt það mikið og velt fyrir sér hverju þurfi helst að breyta og haft ýmsar skoðanir á því. Eitt og annað hefur verið gert í lýðræðismálum, ýmsar breytingar reyndar þar. Það var brotið blað, má segja, með myndun minnihlutastjórnar þegar við framsóknarmenn töldum að við þær aðstæður sem voru ríkjandi í þjóðfélaginu hlytu allir að vinna saman nokkurn veginn að sömu markmiðum. Við lögðum svo fram efnahagstillögur til þessarar sömu ríkisstjórnar svo hún mætti vinna úr þeim. Það var tekin upp mikil samvinna í Icesave-málinu umdeilda. Hér í þinginu hafa verið lagðar fram endalausar samstarfstillögur. Eins teljum við mikilvægt að efla áfram stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, tryggja raunverulega þrískiptingu ríkisvaldsins. Framsóknarmenn hafa barist mikið fyrir stjórnlagaþingi og gert tillögur um aðrar gagngerar breytingar í stjórnkerfinu.

Allt þetta hins vegar mun ekki duga til ef ekki er ráðist gegn rót vandans, rót þeirrar óánægju sem er ríkjandi og er ákaflega skiljanleg. Hún hlýtur að vera sú að á gríðarlegum erfiðleikatímum, einhverjum mestu efnahagslegu hörmungum sem yfir landið hafa gengið, skila stjórnmálin ekki af sér lausnum. Þau framkvæma ekki í samræmi við tilefnið. Á meðan sú verður raunin verður engin sátt um stjórnmálin í landinu, sama hvað líður góðum lýðræðisumbótum.

Ástand eins og hér ríkir núna kallar á róttækar aðgerðir, aðgerðir sem menn mundu kannski ekki grípa til við eðlilegar aðstæður. Nú stefnir hins vegar því miður í að þingið ljúki hér störfum eina ferðina enn án þess að afgreiða raunhæfar lausnir fyrir íslensk heimili og atvinnulíf. Það hefur reyndar gengið ágætlega í samvinnu flokkanna að gera úrbætur á gölluðum greiðsluaðlögunarlögum, en þau lög koma fyrst og fremst til móts við fólk sem þegar er komið í þrot. Það er ekki komið til móts við þá sem eru áfram að reyna að berjast og hafa möguleika á því. Það er ekki komið til móts við fólk sem á dálítið eigið fé. Það er í raun nánast gert ráð fyrir því að millistéttin í landinu þurrkist út, eins og því miður hefur gerst víða þar sem menn hafa fylgt leiðsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það vantar sem sagt hvatann til að menn haldi áfram að berjast, berjast í því að eiga fyrir skuldunum. Það er raunar búinn til öfugur hvati, sterkur öfugur hvati, og fólk nánast hvatt til þess að hætta að vinna og segja þetta gott því að það er ekki komið til móts við það fyrr en sú er orðin raunin.

Það er ekki hægt að ná fram réttum hvata, fá fólk til þess að berjast áfram, nema að tvennt sé tryggt, annars vegar að lágmarkssanngirni ríki í samfélaginu og hins vegar að fólk hafi einhverja framtíðarsýn til að vinna að. Því miður hefur hvorugt verið veitt. Minnihlutastjórnin sem sat hér í nokkra mánuði í fyrra hafði þrjú verkefni. Ekkert þeirra var klárað. Eitt þeirra var að ráðast í almennar aðgerðir til að leysa skuldavanda íslenskra heimila. Til þess höfðu menn einn mánuð. Það var einfaldlega talið að meiri tími væri ekki til stefnu. Síðan er liðið næstum eitt og hálft ár, ósköp lítið hefur gerst og raunar ekkert sem talist getur almennar aðgerðir. Þó sjáum við sem betur fer sífellt betur hversu raunhæfar aðgerðirnar eru sem ganga út á að færa lán allra á nokkurn veginn þann punkt sem þau voru í í byrjun árs 2008, 20% þegar tillögurnar voru lagðar fram, í rauninni að slíkar aðgerðir séu það eina sem var raunhæft í stöðunni.

Nú hefur hæstv. félagsmálaráðherra, sem var einn mesti og ötulasti andstæðingur almennrar skuldaleiðréttingar á sínum tíma, sem betur fer snúist hugur. Hann talar nú fyrir almennri skuldaleiðréttingu, þó einkum varðandi bílalánin. Hvað varðar lán til heimilanna, fasteignalánin, eru tækifærin enn betri þar því að þar er þó búið að gera ráð fyrir afskriftinni. Þar er búið að færa niður lánasöfnin. Hins vegar rukka bankarnir, bankarnir sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir nefndi áðan að skiluðu gríðarlegum hagnaði, áfram 100% fyrir lán sem þeir keyptu með verulegum afslætti. Þetta kallar á inngrip stjórnmálanna. Það er ekki hægt að bíða og bíða í þeirri von að bankarnir, vogunarsjóðirnir og stóru erlendu bankarnir sem eiga þá muni allt í einu taka upp á því að gefa eftir. Þeir eru í þessum bransa til að ná sem mestu með öllum mögulegum ráðum. Þess vegna þurfa íslensk stjórnvöld við þessar aðstæður að grípa inn í fyrir almenning í landinu. Þau þurfa að gera það fyrir október á þessu ári og hefðu raunar átt að vera búin að því fyrir löngu.

Í október á þessu ári tekur gildi yfirlýsing frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þess efnis að það verði engar frekari frystingar og engar frekari niðurfærslur lána. Hvað á þá að taka við? Ekki ætla menn að setja hér stóran hluta íslenskra heimila og fyrirtækja á nauðungaruppboð þannig að eignaverðið í landinu öllu hrynji? Nei, það getur ekki verið. En þá verðum við að hafa raunhæfar framtíðarlausnir og við verðum að byrja að vinna að þeim strax. Þess vegna höfum við lagt fram það sem við köllum þjóðarsáttartilögur, 10 tillögur að atriðum sem allir flokkar ættu að geta verið sammála um, um nauðsynlegar bráðaaðgerðir.

Í fyrsta lagi er að allir sammælist um að nauðsynlegt sé að ráðast í almennar aðgerðir í skuldamálum heimilanna. Það þarf líka að breyta gjaldþrotalögunum þannig að þeir sem lenda í vandræðum þrátt fyrir almennar aðgerðir og jafnvel í gjaldþroti séu ekki eltir áratugum saman.

Það þarf að lækka vextina. Nú eru vextir hér líklega einhverjir þeir hæstu í heimi og hafa verið lengi en í nágrannalöndum eru þeir rétt rúmlega 0%. Það er verið að borga þessa gríðarlega háu vexti frá ríkinu til m.a. erlendra jöklabréfaeigenda og ekki hvað síst til bankanna sem voru nefndir hérna áðan. Bankarnir taka innstæðurnar sem í þá eru lagðar og lána þær ekki út, ekki í áhættusama atvinnuuppbyggingu, nei, þeir setja peningana inn í Seðlabankann þar sem ríkið sér um að borga þeim verulega háa vexti, svo háa vexti að þeir hirða góðan vaxtamun og hafa af þann gríðarlega hagnað sem nefndur var hér áðan. Það er því ekki verið að slá skjaldborg um heimilin, það er verið að slá skjaldborg um kröfuhafa. Það má kannski segja að þetta sé skjaldborg um heimilin en hún snýr þá öfugt og skjaldborg sem snýr öfugt er umsátur. Það ríkir umsátur um heimilin og fyrirtækin í landinu og það er því miður í samræmi við þá stefnu sem mörkuð hefur verið með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og virðist sem stjórnvöld treysti sér einfaldlega ekki til að hverfa af þeirri braut þrátt fyrir að nú megi blasa við öllum hver afraksturinn er.

Það er gríðarlega mikilvægt að menn hverfi af þessari braut sem allra fyrst og fari að byggja upp vinnu í landinu. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar og tækifæri Íslands hvað þetta varðar eru hugsanlega meiri en nokkurs annars lands í Evrópu. Það er nefnilega svo ótal margt sem vinnur með okkur. Ég gæti talið hér upp a.m.k. 30 fjárfestingarverkefni, 30 stór atvinnuverkefni sem menn gætu ráðist í og eru tilbúnir að ráðast í ef stjórnvöld skapa framtíðarsýn hvað varðar skattstefnu og slíkt og eru tilbúin til að svara spurningum á borð við það hvernig staðið verði að orkuframleiðslu. Slík framtíðarsýn er hins vegar ekki til staðar. Það er stöðugt aukið á óvissuna og fjárfestingarverkefnin, atvinnuverkefnin, glatast eitt af öðru.

Þetta er stórhættulegt fyrir hvaða land sem er en sérstaklega fyrir Ísland. Ísland er í þeirri stöðu að geta, eins og ég nefndi áðan, unnið sig út úr vandanum miklu hraðar en nokkurt annað land en því miður er það líka í þeirri stöðu að geta lent í meiri vanda en nokkurt annað land í Evrópu. Ástæðan er sú að við erum mjög fámenn þjóð með miklar auðlindir. Ef okkur auðnast að vinna þannig úr því að þjóðin öll hafi hag af er miklu meira en nóg til skiptanna fyrir alla. Ef sú neikvæða keðjuverkun sem nú er ríkjandi heldur hins vegar áfram er hættan sú að hér haldi fólk áfram að flytjast úr landi. Svona lítil þjóð í Norður-Atlantshafi má ekki við því að missa þúsundir, jafnvel tugþúsundir, af ungu og efnilegu fólki úr landi. Við verðum að grípa inn í strax, snúa við þessari neikvæðu keðjuverkun og koma á þeirri jákvæðu keðjuverkun sem allar forsendur eru til að koma hér á. Til að svo megi verða verða menn að láta sig stjórnmál varða og helst að vera tilbúnir, sem allra flestir, að taka þátt í því að berjast fyrir hagsmunum landsins. Nú er því ekki tíminn til að gefast upp á pólitík, nú ættu sem allra flestir að láta sig stjórnmálin varða og taka þátt í að berjast fyrir því að Ísland verði besti staður í heimi til að búa á.