138. löggjafarþing — 141. fundur,  14. júní 2010.

almennar stjórnmálaumræður.

[22:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Undanfarnir mánuðir hafa um margt verið erfiðir fyrir íslensku þjóðina. Við hrun bankanna féll sú ímynd að Ísland væri stærsta land í heimi og að Íslendingar væru almennt séð hæfileikaríkari og betri en aðrir. Dómharka okkar í eigin garð vegna hrunsins er mikil og hleypur með suma í gönur. Vissulega var margt sem aflaga fór í samfélaginu og eðlilegt að þjóðin láti réttláta reiði sína í ljós, en hins vegar munu neikvæðni og hatur ekki verða til þess að koma okkur upp úr efnahagslægðinni. Við megum nefnilega ekki missa sjónar á öllu því góða sem við eigum, öllu því góða sem hefur verið gert. Við skulum aldrei tapa trúnni á okkur sjálf, trúnni á að við getum bjargað okkur sjálf. Við verðum að gefa okkur þá gjöf að leyfa okkur að hugsa til framtíðar, hugsa um það hvernig samfélag það er sem við viljum búa börnum okkar og barnabörnum. Er það samfélag þar sem einstaklingurinn á að fá að blómstra og umgjörð ríkisins er slík að hugmyndir íbúanna fái að njóta sín eða er það samfélag reiði, neikvæðni og mótmæla, jafnvel við heimahús?

Þrátt fyrir allt eigum við mikil sóknarfæri sem felast í því hversu ung og vel menntuð þjóðin okkar er að ógleymdum þeim miklu náttúruauðlindum sem landið og fiskimiðin geyma. Um þessa styrkleika þjóðarinnar skulum við standa vörð því að á þeim byggjum við sterkt samfélag.

Í fyrrasumar samþykkti Alþingi með naumindum að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Nú er hafið langt og kostnaðarsamt aðildarferli sem enginn virðist lengur hafa pólitíska sannfæringu fyrir. Í dag lagði ég ásamt þingmönnum allra flokka á þingi utan Samfylkingarinnar fram þingsályktunartillögu þess efnis að aðildarumsóknin yrði dregin til baka. Sjálfstæðisflokkurinn telur meginmarkmið utanríkisstefnu Íslands að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Styrkja beri í hvívetna samstarf á grundvelli EES-samningsins og nýta frekar möguleika til að koma íslenskum hagsmunum og sjónarmiðum á framfæri á þeim vettvangi. Ég tel ekki verjandi að eyða frekari tíma eða fjármunum í það villuljós sem aðild að ESB er og þá röngu staðhæfingu að aðild að Evrópusambandinu muni leysa efnahagsvanda þjóðarinnar.

Frú forseti. Góðir landsmenn. Íslenskir stjórnmálamenn þurfa að hugsa til framtíðar. Okkur ber að sýna þjóðinni að við höfum getu til þess að starfa saman að mikilvægum málum og sýna að við getum náð saman um erfið viðfangsefni. Dæmi um slíkt verkefni sem við höfum tekist á við í þinginu er skuldavandi heimilanna. Á undanförnum vikum hafa þingmenn allra flokka unnið saman að því að bæta þau úrræði sem til staðar eru fyrir þau heimili sem eru í hvað mestum vanda. Ég vonast til að farsæl lending náist í því máli og fagna því orðum hæstv. fjármálaráðherra hér áðan um að þingið muni ekki fara heim fyrr en vönduð lausn þeirra verkefna liggi fyrri. Ég fagna þeim orðum og tek undir þau. Við sjálfstæðismenn ætlum okkur að vinna af fullum heilindum að þessari lausn.

Á hinn bóginn ber okkur jafnframt skylda til þess að koma fram með leiðir til að hindra að fleiri einstaklingar þurfi að nýta sér þessi skuldavandaúrræði. Þar eigum við því miður töluvert mikla vinnu eftir. Öflugt og heilbrigt atvinnulíf er frumforsenda þess að hægt sé að verja heimilin og grunnstoðir velferðar- og menntakerfisins.

Grundvallarforsenda þess að unnt verði að sækja fram til bættra lífskjara á Íslandi er að dregið verði úr útgjöldum hins opinbera og fjármunir þess nýttir betur. Of miklar skattálögur á fyrirtæki og einstaklinga draga úr hagvexti og það er þekkt staðreynd að skattheimta á sér sársaukamörk. Þegar farið er yfir þau eins og við sjálfstæðismenn teljum að gert hafi verið hér minnkar greiðsluvilji almennings, skattsvik aukast og ávinningurinn af hærri sköttum verður enginn. Því er ljóst að því eru takmörk sett hversu mikið er hægt að auka skattheimtuna.

Megininntak sjálfstæðisstefnunnar hefur frá stofnun flokksins árið 1929 verið að vinna að innanlandsmálum af víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.

Hafi íslensk þjóð þá stefnu að leiðarljósi mun henni farnast vel við endurreisnina.

Góðir Íslendingar. Náttúra Íslands hefur að undanförnu minnt okkur á hver það er sem ræður. Það eina sem við getum gert er að reyna að laga okkur að þeim aðstæðum sem náttúran býður upp á. Þetta hefur íslenska þjóðin vitað í gegnum aldirnar. Þótt draumar um alheimsyfirráð hafi um stund villt okkur sýn er ljóst að við munum standa atburði liðinna missira af okkur. Við munum gera það. Verkefnin sem fylgja eru erfið og að sumu leyti ógnvekjandi en samhent viðbrögð samfélagsins alls þarf til að endurreisnin gangi hratt og vel fyrir sig.

Æðruleysi og þrautseigja þeirra sem nú glíma við afleiðingar eldgossins í Eyjafjallajökli eru aðdáunarverð. Viðbrögðin við þeirri vá sem steðjar að íbúum í næsta nágrenni jökulsins segja mér að Íslendingar kunna þrátt fyrir allt enn að standa saman. Að þessu leyti hefur Eyjafjallajökull gefið okkur ákveðið jarðsamband að nýju. Samfélagið er sterkt og á þeirri staðreynd munum við byggja blómlega framtíð fyrir komandi kynslóðir. — Góðar stundir.