138. löggjafarþing — 141. fundur,  14. júní 2010.

almennar stjórnmálaumræður.

[22:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Nú er um eitt og hálft ár liðið frá því að efnahagshrun skall á íslenskri þjóð og enn er kallað eftir aðgerðum stjórnvalda fyrir heimili og fyrirtæki. Vonbrigði almenning vegna aðgerðaleysis stjórnvalda eru augljóslega mikil, enda fleiri og fleiri heimili og fyrirtæki á leiðinni í þrot.

Frú forseti. Ég sakna þess að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki vera við þessa umræðu. Fjölmargir hafa bent á þau flóknu og gagnslitlu úrræði sem í boði eru og að þau gagnist of fáum. Fjölmargir hafa einnig bent á leiðir til úrbóta en talað fyrir daufum eyrum.

Fyrir rúmu ári voru almennar stjórnmálaumræður í þessum sal. Kom eftirfarandi fram í ræðu eins hv. þingmanns, með leyfi forseta:

„Fasteignaverð mun að öllu óbreyttu lækka sem þýðir á mæltu máli að eigið fé íslenskra húsnæðiseigenda mun stórlækka á meðan húsnæðisskuldir hækka og verði ekkert að gert muni tugþúsundir íslenskra heimila keyra í þrot sökum hækkandi skulda og lækkandi tekna. Það blasir því við okkur öllum, þ.e. þeim sem á annað borð vilja horfast í augu við raunveruleikann, að róttækra aðgerða er þörf til að koma til móts við vanda heimilanna í landinu.“

Þetta var fyrir ári. Þessi spá hv. þingmanns hefur því miður ræst. En enn berja ríkisstjórnarflokkarnir hausnum við steininn og reyna hvað þeir geta til að komast hjá því að grípa til almennra aðgerða. En þeirra er þörf.

Framsóknarflokkurinn hefur ítrekað lagt fram tillögur til lausnar á vanda heimila og fyrirtækja ásamt því að koma með tillögur að uppbyggingu efnahagslífsins. Almennra aðgerða er þörf.

Síðan fyrstu tillögur komu fram veturinn 2009 hafa fleiri og fleiri séð að tillögur framsóknarmanna um almenna leiðréttingu lána voru og eru áhrifamesta leiðin. Því miður virðist ríkisstjórnin ekki hafa áhuga á því.

Frú forseti. Við þurfum öll að virða skoðanir hvers annars og vitað er að innan stjórnmálaflokkanna eru skiptar skoðanir um mörg mál. Eitt af því er umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Of margir stjórnmálaforingjar fara á það stig að fórna stefnumálum sínum og tengslum við grasrótina til þess eins að halda völdum. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók þá ákvörðun að leiða aðlögun Íslands að Evrópusambandinu.

Ég leyfi mér að fullyrða, frú forseti, að fyrir kosningar hefði engum dottið í hug að núverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, gengi í björg fyrir Evrópusambandið. Því miður virðist mér að hæstv. fjármálaráðherra ætli að fylgja hæstv. forsætisráðherra, sama hvað á gengur, þótt flestum sé ljóst að meiri hluti þjóðarinnar sé nú á annarri skoðun. Hæstv. fjármálaráðherra virðist því hættur að hlusta á grasrótina og kjósendur.

Skoðanakönnun sem gerð var í mars sl. fyrir Samtök iðnaðarins sýnir vel hvernig kjósendur stjórnmálaflokkanna sjá þetta mál í dag. 43% þeirra sem segjast kjósa Samfylkingu segjast mundu greiða örugglega atkvæði með aðild, 12% kjósenda Sjálfstæðisflokks, aðeins 11% kjósenda Vinstri grænna og 2% kjósenda Framsóknarflokks.

Frú forseti. Svo virðist sem leiðtogaráð Evrópusambandsins ætli að fjalla um umsókn Íslands fimmtudaginn 17. júní. Ég mótmæli harðlega þeim hroka sem felst í því að fjalla um svo viðkvæmt mál á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Við verðum okkar á milli að ræða þetta mál af virðingu við allar skoðanir því að það er réttur hvers og eins að hafa skoðun. Við eigum ekki að vera feimin við að ræða þetta mál, líkt og mér virðast forsvarsmenn þessarar ríkisstjórnar vera.

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi hér áðan jákvæðan viðskiptajöfnuð sem við fögnum öll. En hvernig verður sá viðskiptajöfnuður til? Hann stafar af landbúnaðinum, sjávarútveginum, iðnaðinum og ferðaþjónustunni. Í hverjar þessara greina hefur þessi ríkisstjórn einna helst reynt að höggva? Og hér ræddi hæstv. fjármálaráðherra um að þjóðargjaldþrot hefði verið rætt í þessum sal. Það var ekki síst íslenska þjóðin sem kom í veg fyrir hættu á þjóðargjaldþroti með því að hafna Icesave-samningum hæstv. fjármálaráðherra.

Virðulegi forseti. Framsóknarmenn kynntu nýverið leið til nýrrar þjóðarsáttar þar sem enn og aftur er lagður grunnur að endurreisn efnahags þjóðarinnar. Nú hafa þingmenn Framsóknarflokksins lagt fram þingsályktunartillögu sem byggir á þessari tillögu. Við leggjum mikla áherslu á þetta mál. Við leggjum til við hæstv. forsætisráðherra að henni verði falið að koma á fót samvinnuráði, vettvangi stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila, til að ræða og leita leiða í anda þjóðarsáttar til langtímastyrkingar atvinnuvega landsins og efnahags þjóðarinnar til frambúðar. Leggjum við til að í þessu samvinnuráði sitji fulltrúar allra þingflokka, ásamt fulltrúum atvinnulífs, launþega, sveitarfélaga, fjármálafyrirtækja og Bændasamtaka Íslands, og að samvinnuráðið leggi tillögur fyrir forsætisráðherra eigi síðar en 31. desember 2010.

Frú forseti. Almenn skuldaleiðrétting með jafnræði, réttlæti og hagkvæmni að leiðarljósi er fyrsta og veigamesta verkefnið.

2. Lækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands.

3. Trygging stöðugs verðlags.

4. Atvinnuskapandi framkvæmdir.

5. Jöfnun áhættu í skiptum lánveitenda og lántaka.

6. Stytting fyrningarfresta krafna eftir gjaldþrot.

7. Jöfnun samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði.

8. Sköpun stöðugleika og festu í rekstri ríkisins.

9. Gerð langtímaáætlana um útgjöld ríkisins.

10. Endurskipulagning ríkisfjármála og endurskoðun samstarfsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Virðulegi forseti. Það er forgangsmál að verja heimilin og atvinnuréttindi fólksins í landinu. Setjum nú fólkið í forgang. — Góðar stundir.