138. löggjafarþing — 141. fundur,  14. júní 2010.

almennar stjórnmálaumræður.

[22:52]
Horfa

Margrét Pétursdóttir (Vg):

Háttvirtir landsmenn. Það er sérstakt að búa á Íslandi um þessar mundir. Við glímum við alvarlegar afleiðingar hrunsins sem voru ekki aðeins efnahagshrun heldur líka hrun heillar hugmyndafræði sem allt okkar samfélag hefur snúist um síðustu áratugi. Og nú er verið að skrifa söguna. Þeim skrifum fylgja mikil átök þar sem verkalýðsfélög, lífeyrissjóðir, fyrirtæki, stofnanir, stjórnmálaflokkar og einstaklingar eiga misauðvelt með að horfast í augu við ábyrgð sína á því sem varð og bera þá ábyrgð. Í þessum átökum hefur pólitík verið dregin niður í svað. Gagnrýnin hugsun og hugmyndafræði þykja allt í einu ljótir eiginleikar.

Ágætu landsmenn. Þingheimur. Hvað er pólitík? Pólitík er okkar nánasta umhverfi og pólitík er heimurinn. Það er hún sem ræður ákvörðunum um hvort við rekum hér heilbrigðiskerfi á félagslegum grunni eða ekki. Það er pólitík sem ræður því hvort við gefum eða seljum auðlindir okkar í hendur einstaklinga og fyrirtækja sem vilja hafa af þeim arð. Það er pólitík sem ræður því hvort við efnum til þjóðaratkvæðagreiðslna um mikilvæg mál. Það er pólitík að velja jafnrétti fram yfir mismunun.

Hvað er þá hugmyndafræði? Jú, hún snýst um það hvernig við tökum þessar ákvarðanir og hvaða áherslur við leggjum við slíka ákvarðanatöku. Hugsum við fyrst um einstakling og svo um samfélag, eða öfugt? Um launafólk eða atvinnurekendur? Um líðandi stund eða framtíðina? Það var ekki pólitík í sjálfu sér sem olli hér hruni. Það var vond pólitík og vond hugmyndafræði, hugmyndafræði sem byggði á einstaklingshyggju og óheftri markaðshyggju, svo taumlausri á stundum að jaðraði við mannvonsku og með þeim afleiðingum að samfélag sem formæður okkar og -feður byggðu upp af hugsjón og elju hrundi til grunna.

Rannsóknarskýrsla Alþingis sýnir þetta svart á hvítu. Ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð hér.

Það tekur tíma að vinda ofan af þessari óheillaþróun. Það gerist ekki á einni nóttu. Ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar hefur stigið mörg mikilvæg skref á því ári sem hún hefur starfað. Fyrir utan hið víðfeðma björgunarstarf sem stjórnarflokkarnir fást við frá degi til dags hefur tekist að koma í gegn réttlætismálum sem hefur verið barist fyrir árum og áratugum saman. Nærtækasta dæmið er breytingar á hjónabandslöggjöf þar sem mismunun eftir kynhneigð er nú horfin. En mörg verkefni bíða. Það er okkar þingmanna að takast á við verkefnin með ný vinnubrögð og nýja hugmyndafræði að leiðarljósi. Lýðræðið er ekki þingmanna, það er fólksins, það er okkar allra. Við eigum að hlusta þegar til okkar er kallað, sama með hvaða hætti það er gert. Við eigum að taka við skilaboðum hvernig sem þau berast, með undirskriftalistum, blaðagreinum, mótmælum eða hverju öðru.

Frú forseti. Þá er okkar að hlusta. Og ekki bara að hlusta, heldur að kalla eftir viðbrögðum og hvetja fólk til og að stjórnmálum með því að láta skoðanir sínar í ljós.

Þingheimur á að hafa kjark og þor til að bregðast við breyttum tímum. Við eigum að vera óhrædd við að taka mál algerlega frá grunni í stað þess að smyrja ofan á gallaða löggjöf eða stoppa upp í göt hins ónýta kerfis. Það ónýta kerfi hrundi til grunna, að rótum. Þá hlýtur tími róttækni að vera kominn. Við verum að hreinsa frá þær fúnu stoðir sem eftir standa á víð og dreif og sýna kjark og dug til að byggja upp traustara og sanngjarnara samfélag. Í deilumálum á einfaldlega að reyna á meiri hlutann á þingi. Sá meiri hluti þarf ekkert að vera eins í öllum málum. Fyrir flokk að vera stjórntækur hlýtur að fara eftir hugmyndafræði hans og hve vel þeim flokki tekst að varðveita og fara eftir hugmyndafræði sinni, ekki að flokkurinn lagi sig að hugmyndafræði annarra flokka.

Hæstvirtir landsmenn. Það er sérstakt að búa á Íslandi um þessar mundir, en með kjarkmiklum og róttækum ákvörðunum getum við breytt samfélagi okkar þannig að við stöndum sterkari uppi en áður. Okkar er valið. Lifi gagnrýnin hugsun, róttækni og pönk.