138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[10:12]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Sem svar við þessu vil ég segja að ég held að allir sanngjarnir þingmenn hljóti að viðurkenna að sá vetur sem við höfum gengið í gegnum hefur verið mjög erfiður (Gripið fram í.) og miklu meiri, fleiri og þyngri mál verið flutt en gerist og gengur á almennum þingum undir eðlilegum kringumstæðum. Ég held að allur þingheimur hafi lagt sig fram um að leysa vel þau mál sem fyrir hann hafa verið lögð. Þau hafa verið óvenjumörg, þau hafa mörg komið seint fram, því miður, en við stöndum í fordæmislausum aðgerðum vegna hrunsins, bæði vegna heimilanna og fyrirtækja sem við erum að reyna að bjarga.

Það er alveg ljóst að menn leggja misjafnt mat á það hvað þeir telja stór og mikilvæg mál sem brýnt er að leysa og afgreiða með einhverjum hætti fyrir þinglok. Flokkarnir leggja misjafna áherslu á hvaða mál eru brýn og þurfi að afgreiða. Ég held að eitt standi þó upp úr og það er að flokkarnir leggja allir áherslu á að klára þennan svokallaða heimilispakka, aðgerðirnar fyrir heimilin. Ég vil fyrir mitt leyti standa að því að ef við þurfum meiri tíma en gert er ráð fyrir í dagskrá þingsins tökum við hann. Mér sýnist stefna í að við þurfum að vera hér einn dag síðar í þessum mánuði til að geta endanlega klárað þessi mál þannig að réttarfarsnefnd fái tækifæri til að fara yfir atriði sem ýmsir vilja að hún fari betur yfir þannig að við séum sæmilega örugg á því að við séum með heimilispakka sem haldi í öllum atriðum Menn vilja láta skoða áður örfá þeirra mála sem þar hafa verið rædd. Við sjáum vonandi til lands með þetta allt saman í dag. Ég hef boðað til formannafundar strax að afloknum óundirbúnum fyrirspurnum, (Forseti hringir.) og þá atkvæðagreiðslum ef fyrir hendi eru, til að freista þess að fá lyktir í þetta þinghald.